Vont veður í Vestmannaeyjum

Gretar Þorgils er sjö ára og mjög ánægður með allan …
Gretar Þorgils er sjö ára og mjög ánægður með allan þennan snjó. mbl.is/Ómar Garðarsson

Ófært er milli húsa í Vestmannaeyjum sökum mikillar snjókomu og blindbylur gerir það að verkum að skyggni er mjög lítið. Lögreglan biður fólk um að vera ekki á ferli nema nauðsynlegt sé.

„Það eru komnir tveggja til þriggja metra háir skaflar sumstaðar og björgunarsveitin er búin að festa sína öflugu bíla við að aðstoða fólk," sagði Jón Bragi Arnarson varðstjóri lögreglunnar.

Mesta snjókoma í 20 ár 

Hann sagði að í morgun hefði verið reynt að halda stofnleiðum opnum en nú hefðu menn gefist upp á því og lagt snjómoksturstækjunum. Lögreglan og björgunarsveitin hefur aðstoðað fólk á sjúkrahúsinu við vaktaskiptin í morgun, að hjálpa fólki heim af vaktinni og þeim sem þurfa að mæta til vinnu.

„Í hádeginu þarf síðan að gera slíkt hið sama fyrir fólkið í loðnuvinnslunni," sagði Jón Bragi og bætti því við að hann myndi ekki eftir annarri eins snjókomu síðast liðin 20 ár.

Herjólfur heldur áætlun 

Á skrifstofu Herjólfs fengust þær upplýsingar að skipið hefði verið örlítið á eftir áætlun í morgun því björgunarsveitin hefði þurft að aðstoða farþega til skips en að öðru leyti stæðist áætlun þar sem sjólag væri ágætt.

Messufall 

Kristján Björnsson sóknarprestur í Vestmannaeyjum segir það ótrúlegt að þurfa að fella niður messur vegna fannfergis og skafhríðar í Vestmannaeyjum en vegna ófærðar þarf nú að fella niður barnaguðsþjónustu kl. 11 og guðsþjónustu kl. 14.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert