Eigendur rafmagnsbíla fái ókeypis hleðslu

Árið 2000 tók Orkuveita Reykjavíkur þátt í tilraunum með hreyfilhitara í Reykjavík, sem tengdir voru við innstungur við fjölbýlishús í Árbænum. Tilraunirnar leiddu ekki af sér útbreidda notkun búnaðarins, en með hliðsjón af himinháu olíuverði má ætla að sá eldsneytissparnaður sem notkun hans felur í sér verði til að auka áhugann á nýjan leik.

Þetta er mat Ásdísar Kristinsdóttur, vélaverkfræðings hjá Orkuveitunni, en hún segir stóran hluta af 166 ökutækjum framkvæmdasviðs OR þegar búinn hreyfilhitara.

Hún vísar jafnframt til vefsíðu um verkefnið í Árbænum, þar sem fram kemur að hreyfilhitarar séu álitnir góð fjárfesting, sem dragi úr bensíneyðslu, mengun og vélarsliti.

Tekið skal fram að tölurnar á umræddri vefsíðu – sem er á vefsvæði Landverndar – eru nokkurra ára gamlar, en þar segir að samkvæmt tölum frá OR megi ætla að dagleg meðalnotkun hreyfilhitara og hitablásara krefjist um 360 kílówattstunda af orku og að orkukostnaðurinn sé því alls um 2.700 krónur á ári. Heildarkostnaður með ísetningu var þá metinn á nokkra tugi þúsunda.

Ásdís segir aðspurð OR ekki útiloka að fyrirtækið muni greiða fyrir notkun hreyfilhitara með því að taka þátt í uppsetningu nauðsynlegra tengla fyrir búnaðinn. Vilji sé af hálfu OR til að skoða málið.

OR hefur sett sér það markmið að 55% af ökutækjum á vegum fyrirtækisins verði skilgreind sem visthæf árið 2013 og stendur til að fjölga metanbifreiðum úr níu í 24 á þessu ári, ásamt því sem nokkrar vetnis- og rafmagnsbifreiðar eru nú í tilraunaakstri hjá fyrirtækinu.

Ásdís segir það metnað fyrirtækisins að auka áhuga almennings á visthæfum samgöngum. Ýmislegt sé í gangi og nefna megi að senn verði eigendum rafmagnsbifreiða boðið upp á ókeypis hleðslu í nokkrum afmörkuðum stæðum við Kringluna, Smáralind og í Bankastræti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert