Leggja til aukningu loðnukvóta

mbl.is/Kristinn

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur verið við loðnurannsóknir fyrir Suðaustur- og Austurlandi frá því að mælingum lauk vestan við Ingólfshöfða þann 27. febrúar. Á svæðinu austan við Ingólfshöfða mældist loðna einkum í Lónsdjúpi, Litladýpi og á Papagrunni. Á öðrum svæðum sem skoðuð voru fannst einungis lítilsháttar magn. Samtals mældust um 56 þús. tonn af loðnu austan við Ingólfshöfða þar af kynþroska loðna rúm 50 þús. tonn.

Í ljósi þess að umrædd loðna er langt austan við það svæði sem mælt var dagana 25.-27. febrúar og var forsenda ráðgjafar sem veitt var þann 27. ferbrúar, hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að aflamark á loðnuvertíðinni 2007/2008 verði aukið um 50 þúsund tonn. Í síðustu viku ákvað sjávarútvegsráðherra að fengnu áliti frá Hafrannsóknarstofnun, að heimila loðnuveiðar á ný. Þar var miðað við að heildaraflamark á loðnu, sem kemur í hlut Íslendinga, verði 100 þúsund tonn, í stað þeirra 121 þúsund tonna sem áður var búið að úthluta.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur nú lokið loðnuleit og mælingum fyrir Suðaustur- og Austurlandi og mun halda vesturum og sinna rannsóknum vestast á veiðisvæðinu sem nú er út af Krísuvíkurbjargi. Í framhaldi af því mun skipið sinna rannsóknum á botnfiskum en jafnframt kanna svæðið fyrir sunnanverðum Vestfjörðum ef vera kynni að loðna kæmi í umtalsverðu magni þá leiðina til hrygningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert