Ísland fellur um sjö sæti

Ferðamenn fylgjast hugfangnir með Strokki gjósa.
Ferðamenn fylgjast hugfangnir með Strokki gjósa. mbl.is/RAX

Ísland lækkar úr fjórða sæti í það ellefta í samkeppnisvísitölu ferðaþjónustunnar (Travel and Tourism Competitiveness Index) sem gefin er út af Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum, WEF).

Fram kemur í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins, að nokkrar endurbætur hafi verið gerðar á samsetningu vísitölunnar í ár sem útskýri að hluta verra gengi Íslands í könnuninni.

Markmið samkeppnisvísitölu ferðaþjónustunnar er að mæla þá þætti sem gera þróun ferðaþjónustunnar að álitlegum kosti í mismunandi löndum. Sviss, Austurríki og Þýskaland eru leiðandi í samkeppnishæfni í ferðaþjónustu og skipa sér í þrjú efstu sætin. Ástralía, Spánn, Bretland, Bandaríkin, Svíþjóð, Kanada og Frakkland koma þar á eftir í tíu efstu sætin.

„Ferðaþjónustan veltur mikið á gæðum náttúrunnar og umhverfisins og það leiðir til þess að ríkisstjórnir og ferðaiðnaðurinn eru í auknum mæli að beina sjónum sínum að umhverfisvernd,“ segir Thea Chiesa, framkvæmdastjóri ferðamála hjá Alþjóðaefnahagsráðinu. Í skýrslunni er lögð sérstök áhersla á mikilvægi sjálfbærni í ferðaþjónustunni og til að endurspegla hana var sá þáttur vísitölunnar sem snýr að umhverfinu endurbættur og gefið nafnið sjálfbær þróun.

Fram kemur í tilkynningu að þrátt fyrir lakara gengi Íslands sé samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar í landinu mjög góð. Svíþjóð er í áttunda sæti og er eina norðurlandaþjóðin sem er ofar á listanum, Finnland kemur á eftir Íslandi í tólfta sæti, Danmörk í þrettánda og Noregur í því sautjánda.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert