Iðnaðarráðherra: Hlutirnir eru byrjaðir að gerast

Össur Skarphéðinsson hélt ræðu á Iðnþingi í dag.
Össur Skarphéðinsson hélt ræðu á Iðnþingi í dag. mbl.is/Golli

Ísland er allt í einu farið að þokast inn á radar alþjóðlegra hátæknifyrirtækja, sem vilja eignast sameiginlegar hosur með okkur og gera þær grænar. Þetta kom fram í ræðu Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra á Iðnþingi í dag. Sagði hann að um meira en áhuga væri að ræða – hlutirnir væru byrjaðir að gerast.
 
„Á síðasta sumri tókust samningar um nýtt hátæknifyrirtæki á Íslandi. Hið norður-ítalska Becromal í samvinnu við sunnlenska fjárfesta rak tjaldhæla sína í jörðu við hliðina á gömlu Krossanesverksmiðjunni á Akureyri.
 
Skoðum Verne.
 
Um leið og ríkisstjórnin tók af skarið um lagningu nýs sæstrengs, hvenær hann skyldi lagður og hvert hann skyldi liggja, þá opnaðist um leið farvegur fyrir nýja atvinnugrein á Íslandi, nýja tegund fyrirtækja,
gagnaver.
 
Ég get trúað ykkur fyrir því að ýmsir kollegar mínir á hinu háa Alþingi – sumir í þessum sal sem þið sitjið í núna – gerðu góðlátlegt grín að því í þinginu þegar nýir ráðherrar töluðu af bjartsýni um möguleika Íslands til að verða heitur reitur alþjóðlegra gagnavera, selja íslenska kuldann, og grænu íslensku orkuna – meira að segja á hærra verði en hingað til!
 
Í síðustu viku var tilkynnt um fyrsta íslenska gagnaverið. Það verður líklega ekki hið síðasta. Einn af fjárfestunum, ættaður af slóðum vestfirsku lúðuveiðaranna í Boston, sagði að á næsta áratug gætu Íslendingar búist við "bylgju" af slíkum fyrirtækjum. Í sama streng tók yfirmaður tækniþróunardeildar IBM, sem ræddi við ýmsa ráðherra í síðasta mánuði, og sagði að sitt starf um þessar mundir væri aðallega að velja staði undir ný gagnaver.
 
Mér þótti líka eftirtektarvert, að sá sem harðast gagnrýndi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um legu sæstrengsins, tók svo til orða í Viðskiptablaðinu fyrir 3 vikum, að gera mætti ráð fyrir eftirspurn í þeim mæli, að innan fimm ára þyrfti hugsanlega að leggja nýjan sæstreng. Ef þess þarf til að greiða fyrir nýjum fyrirtækjum hingað til lands, þá mun ríkisstjórnin gera það,” segir Össur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert