Mikið um hraðakstur í Hafnarfirði

Lögreglan að störfum
Lögreglan að störfum

Lögreglan hefur þurft að hafa talsverð afskipti af ökumönnum í Hafnarfirði í gær og í dag en alls voru brot 128 ökumanna mynduð, samkvæmt vef lögreglunnar. 

HRAÐAKSTUR Á ARNARHRAUNI Í HAFNARFIRÐI

Brot 19 ökumanna voru mynduð á Arnarhrauni í Hafnarfirði í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Arnarhraun í vesturátt, við Smyrlahraun. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 55 ökutæki þessa akstursleið og því ók rúmlega þriðjungur ökumanna, eða 35%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 44 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 50.

HRAÐAKSTUR Á KIRKJUVÖLLUM Í HAFNARFIRÐI

Brot 55 ökumanna voru mynduð á Kirkjuvöllum í Hafnarfirði í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Kirkjuvelli í vesturátt. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fór 71 ökutæki þessa akstursleið og því ók meirihluti ökumanna, eða 77%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 48 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sautján óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 97 en þar var um bifhjólamann að ræða. Þess skal getið að á þeim hluta vegarkaflans, þar sem hraðamælingin fór fram, eru bæði þrenging á götunni og hraðahindrun sem og biðstöð strætisvagna

HRAÐAKSTUR Á ÁLFASKEIÐI Í HAFNARFIRÐI

Brot 54 ökumanna voru mynduð á Álfaskeiði í Hafnarfirði í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Álfaskeið í vesturátt, nærri Mávahrauni. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fór 91 ökutæki þessa akstursleið og því ók meirihluti ökumanna, eða 59%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 46 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Ellefu óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 54.

Eftirlit lögreglunnar á fyrrnefndum stöðum er hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur í umdæmunum en unnið er eftir ábendingum frá starfsmönnum svæðisstöðva lögreglunnar. Á þessum stöðum voru staðsettar ómerktar lögreglubifreiðar sem búnar eru myndavélabúnaði. Reynslan hefur sýnt að notkun slíks búnaðar gefur gagnlegar upplýsingar um ástand umferðarmála og auðveldar leit að lausnum þar sem þeirra er þörf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert