Ekki dónaleg sýn út í Héðinsfjörð

Gat komið út í Héðinsfjörð Siglufjarðarmegin. Svona birtist Héðinsfjörður bormönnum.
Gat komið út í Héðinsfjörð Siglufjarðarmegin. Svona birtist Héðinsfjörður bormönnum. Ljósmynd/Eduard Straka

Héðinsfjörður birtist tékknesku bormönnunum hjá verktakafyrirtækinu Metrostrav seint að kvöldi föstudagsins langa en þeir vinna að gerð ganganna frá Siglufirði út í Héðinsfjörð.

Sá merki áfangi náðist á miðvikudagskvöldið að boraðar voru tvær holur í gegnum bergið og til Héðinsfjarðar en á föstudaginn bættu Tékkarnir sem sagt um betur. Þá átti aðeins eftir að sprengja 22 metra. Gert var ráð fyrir því að það tæki nokkra daga en þeir komust alla leið á föstudagskvöldið og við þeim blasti þá fögur sjón eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Björn A. Harðarson, sem hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdum fyrir hönd Vegagerðarinnar í Héðinsfjarðargöngum, sagði á miðvikudagskvöldið að fara yrði varlega síðustu metrana.

„Við höfum aldrei áður haft þennan háttinn á, við komum bara beint út í hlíð í eyðifirði. Áður hafa menn unnið verkið báðum megin frá og því komið hver á móti öðrum og þannig haft eitthvað til að miða við,“ sagði Björn þá. „Það er nokkur óvissa ríkjandi um hvernig þetta fer svona í bláendann, það fer alveg eftir hvernig bergið er á þessum síðustu metrum,“ sagði hann en það gekk síðan eins og í sögu.

Hafist var handa við gerð Héðinsfjarðarganga haustið 2006, en áætlað er að verkinu ljúki í desember 2009. Göngin eru í tvennu lagi, 3,7 km frá Siglufirði til Héðinsfjarðar og svo 6,9 km frá Héðinsfirði til Ólafsfjarðar. Þá verða steyptir vegskálar við gangamunna, en alls verða göngin um 11 kílómetrar að lengd. „Siglufjarðargengið“ mun að loknum frágangi hefjast handa við að sprengja sig á móti vinnuflokknum sem er á leiðinni frá Ólafsfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert