Einn handtekinn eftir húsleit

Frá aðgerðum lögreglu í kvöld.
Frá aðgerðum lögreglu í kvöld. mynd/Víkurfréttir

Sérsveit ríkislögreglustjóra framkvæmdi í kvöld húsleit með aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum í Reykjanesbæ í kvöld. Einn maður var handtekinn grunaður um að hafa átt þátt í líkamsárás sem átti sér stað í Keilufelli í Breiðholti sl. laugardag.

Alls hafa því fimm manns verið handteknir í tengslum við málið, en um er að ræða pólska ríkisborgara. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, er ekki búið að taka ákvörðun um gæsluvarðahald, en það mun líklega skýrast á morgun. Maðurinn sýndi ekki mótþróa við handtöku og verður fluttur til Reykjavíkur til yfirheyrslu.

Lögreglan hefur staðfest að um skipulagða árás var að ræða þegar sjö slösuðust í árás tíu til tólf manna hóps inni á heimili í Breiðholtinu á laugardag. Liggur einn enn alvarlega slasaður, m.a. með slæma áverka á höfði og samanfallið lunga. Voru árásarmennirnir m.a. vopnaðir járnstöngum, slaghömrum, sleggju og exi. Virðist sem árásarmennirnir hafi verið að innheimta verndartoll.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve margir árásarmennirnir voru, en talið er að þeir hafi 10 eða 12.

Rannsókn málsins stendur enn yfir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert