Ekki frekari eftirmál af beinfundinum

Lögreglan í Reykjavík segir að uppruni höfuðkúpubeins sem fannst í Kjósarhreppi á páskadag liggi fyrir. Bendir allt til þess að ekki sé um sakamál að ræða og verða ekki frekari eftirmál af fundinum.

Að kvöldi páskadags var lögreglu tilkynnt um beinafundinn og voru starfsmenn tæknideildar lögreglunnar komnir á svæðið um kl. 23 til nánari leitar á svæðinu. Ekki kom fleira í ljós og var ítarlegri rannsókn frestað, en læknir sem skoðaði beinin staðfesti að um væri að ræða hluta úr höfuðkúpu, hugsanlega af konu, og að beinið væri 10 til 30 ára gamalt.

Að sögn íbúa eins af bæjunum í nágrenninu voru það börn að leik sem fyrst fundu beinið.

Á mánudag kom svo í ljós að beinið var hluti af búslóð hjólhýsis sem flutt hafði verið á svæðið ekki alls fyrir löngu, en splundraðist í ofsaveðri um áramót svo innanstokksmunir dreifðust um svæðið, og fannst beinið innan um alls kyns smámuni.

Að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins gaf eigandi hjólhýsisins sig fljótlega fram við lögreglu og gaf skýrslu. Hafði hún talið að um dýrabein væri að ræða, og var mjög brugðið að heyra að hún hefði haft mannabein í fórum sínum. Mun annar aðili hafa komið með beinið í hjólhýsið.

Varðstjóri vildi ekki upplýsa nánar um mögulegan uppruna beinsins en um var að ræða efsta hluta höfuðkúpu sem iðulega er skorinn af við krufningu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert