Gylfi: Við óbreytt ástand eru forsendur kjarasamninga brostnar

Kjarasamningar voru undirritaðir fyrir skömmu
Kjarasamningar voru undirritaðir fyrir skömmu mbl.is/RAX

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, segir að ef þær verðbólguvæntingar, sem boðaðar eru festi sig í sessi gefi það auga leið að forsendur nýgerðra kjarasamninga séu brostnar. Þær forsendur eru að kaupmáttur verði óbreyttur og að verðbólga fari lækkandi. Þess beri hins vegar að gæta að verðbólga og verðbólguhorfur eru mældar til langs tíma og stutt síðan kjarasamningar voru samþykktir.

Hann segir ljóst að ef ástandið batnar ekki þá ráði óðaverðbólga ríkjum á ný og verkalýðshreyfingin muni ekki sitja hjá og láta það gerast án þess að launþegar fái bætur. Stjórnvöld hljóti á einhverjum tímapunkti átta sig á því, að aðkoma ríkisstjórnarinnar að því að vinna að þessu verkefni með Seðlabankanum hljóti að vera umtalsverð. Setjast þurfi niður og finna út hvaða leiðir séu færar í stað þess að halda vikulega blaðamannafundi til að upplýsa um að ekki standi til að gera nokkurn skapaðan hlut.

Gylfi segir að stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í morgun hafi komið á óvart þar sem næsti vaxtaákvörðunardagur bankans var áætlaður þann 10. apríl. En í ljósi þess hvað hafi gerst á síðustu tíu dögum þá komi ekki á óvart að bankinn grípi inn nú. Enda ljóst að ríkisstjórnin ætlaði ekki að gera neitt.

Olíufélögin gripu gæsina glóðvolga

Að sögn Gylfa gripu olíufélögin gæsina á meðan hún var glóðvolg á mánudaginn í síðustu viku og hækkuðu olíuverð mjög mikið án þess að vitað sé til þess að neinn olíufarmur hafi borist til landsins.

„Forsvarsmenn Haga upplýsa í morgun um að það sé 20% hækkun matvælaverðs framundan. Þannig að auðvitað er þetta ávísun á mjög aukna verðbólgu og verðbólguvæntingar og fyrirtæki búa sig í haginn með það að verðbólga fari vaxandi. Það er náttúrulega algjörlega ótækt að þessu sé öllu velt jafn hraðan út í verðlagið líkt og nú er í gangi. Kannski er ekki við öðru að búast en að Seðlabankinn grípi inn þegar ríkisstjórnin ætlar ekki að bera neina ábyrgð á því að skapa festu í þjóðfélaginu. Seðlabankinn mætir því harkalega því hans hlutverk er að sjá til þess að verðlag haldist hér lágt. Ef fyrirtækin ætla að ganga svona á lagið, bæði vegna sveiflu á gengi krónunnar og nýgerðra kjarasamninga, þá  er ekkert annað í stöðunni fyrir Seðlabankann en að bregðast mjög hart við því."

Grafalvarlegt ef innlendir aðilar eru að vinna gegn krónunni

Gylfi segir að ef ákvörðun Seðlabankans sé sett í þetta ljós þá er skiljanlegra að hann hækki stýrivexti nú.

„En það breytir því ekki að við í verkalýðshreyfingunni lítum á þetta grafalvarlegum augum. Því auðvitað varð mikið fall á krónunni hér fyrir helgi og mikið áhyggjuefni ef það fall hefði grafið um sig og fest sig í sessi. En að sama skapi er þetta alvarlegt sem maður er að heyra að það hafi verið innlendir aðilar sem voru að vinna gegn krónunni.

Við hljótum að krefjast þess núna að annars vegar verði virkjaður sá samráðsvettvangur sem til er, meðal annars verði forsendunefnd kjarasamninga kölluð saman því hennar hlutverk er að fylgjast með framvindu efnahagsmála og koma með tillögur um úrræði. Jafnframt að stjórnvöld myndi formlegan vettvang með aðilum vinnumarkaðarins, sem ekki hefur verið kallaður saman síðan í fyrrasumar. Það er mjög mikilvægt að virkja hann nú til samráðs. 

Síðast en ekki síst munum við krefjast þess að fá upplýsingar um hvað það er sem er að valda þessum sveiflum á krónunni. Eru menn að taka stöður? Eru menn að vinna gegn krónunni? Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé en við viljum fá upplýsingar um það þar sem þetta veldur búsrifjum hjá okkar fólki. Ef aðilar á fjármálamarkaði eru að bæta sína stöðu með því að gera áhlaup á krónuna þá er það ákaflega skammvinnur ávinningur fyrir þá aðila. Að valda usla í íslensku efnahagslífi og rýra kaupmátt okkar félaga úr öllu hófi ef þetta festir sig í sessi. Við hljótum að gera kröfu til þess að fá upplýsingar um hvað sé eðli þessara viðskipta," segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert