Lagafrumvarp um Landeyjahöfn

Líkan af væntanlegri Landeyjahöfn.
Líkan af væntanlegri Landeyjahöfn. mbl.is/Ásdís

Samgönguráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um Landeyjahöfn en þar er lagt til að byggð verði ferjuhöfn í Bakkafjöru á Landeyjum sem alfarið verður í eigu ríkisins, fjármögnuð úr ríkissjóði og rekin af ríkinu. Er höfninni ætla að styrkja samgöngur milli lands og Vestmannaeyja.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að um sé að ræða  einstaka hafnarframkvæmd sem ekki falli að öllu leyti undir hafnalög. Því þyki nauðsynlegt að sett verði sérlög sem gildi um þessa tilteknu ferjuhöfn eingöngu og gangi framar hafnalögum.

Í frumvarpinu er m.a. eignarnámsheimild vegna þess lands, sem þarf undir höfnina, varnargarða, efnistöku og vegagerð henni tengdri. Er m.a. kveðið á um, að ekki þurfi að leita samninga við landeigendur áður en eignarnámið fer fram og helgist það af því, að þegar hafi verið fullreyndir samningar við landeigendur um land fyrir höfnina. Engin niðurstaða hafi orðið af þeim samningaviðræðum og ekki við því að búast, að hún fáist þótt frumvarp þetta verði að lögum. Þyki því ekki ástæða til að framgangur málsins tefjist af þeim sökum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að fyrir liggur að græða þurfi upp sanda í Bakkafjöru til að hefta sandfok við höfnina og umhverfi hennar. Samningur sé milli Landgræðslunnar og landeigenda í Landeyjum um uppgræðslu sandanna en hins vegar sé talið nauðsynlegt að tryggja til frambúðar rétt til að rækta upp mela og sanda til að hefta sandfok, enda megi gera ráð fyrir að slík ræktun komi landeigendum jafnframt til góða. Sé því lagt til að þeir verði að þola slíka uppgræðslu endurgjaldslaust.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert