ÍAV býður ekki í fleiri verk á Austurlandi

 ÍAV hefur ákveðið að bjóða ekki í fleiri verk á Austurlandi. Ástæðan er kólnun á íbúðamarkaði og minnkandi umsvif í verklegum framkvæmdum í fjórðungnum. Aðflutningur nýrra íbúa til Austurlands hefur ekki orðið eins mikill og talið var að yrði, en þar eru ekki öll kurl komin til grafar enn.

„ÍAV hefur markað sér þá stefnu að afla ekki frekari verkefna á Austurlandi og er að draga saman seglin,“ segir Guðgeir Sigurjónsson, verkefnisstjóri á mannvirkjasviði og stjórnandi ÍAV á Austurlandi.

Fyrirtækið hefur velt á milli 500 og 1.100 milljóna árlega vegna verkefna sinna á Austurlandi. Meiri hluti framkvæmda hefur falist í tilboðsverkum, þ.m.t. stækkun Lagarfossvirkjunar. Einnig íbúðabyggingum, en um 70 íbúðir hafa verið byggðar af ÍAV á Mið-Austurlandi á undanförnum árum. Mikið hefur verið notað af undirverktökum en fyrirtækið hefur um 20 starfsmenn á launaskrá á Austurlandi.

„Við erum að byggja vélaverkstæði fyrir Vélsmiðju Hjalta Einarssonar við Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði, fjórtán íbúða blokk fyrir sama fyrirtæki á Reyðarfirði og íbúðir í Votahvammi á Egilsstöðum og á Breiðamel á Reyðarfirði,“ segir Guðgeir um stærstu verkefnin á Austurlandi.

ÍAV gerði sér fimm ára áætlun þegar ákveðið var að fara í verkefni á Austurlandi árið 2003. Guðgeir segir eigendum nú þykja kominn tími til að stokka upp, því íbúðamarkaðurinn á Austurlandi sé lakari en menn vonuðust til. Þær væntingar sem fyrirtækið gerði sér um verkefnastöðu nú hafi ekki gengið eftir. Þrátt fyrir að íbúðamarkaðurinn eystra sé lakur virðist talsvert vera af smærri verkefnum framundan í annarri uppbyggingu. Styrkur ÍAV liggi í stærri verkefnum og því kjósi fyrirtækið að halda að sér höndum. Reiknað er með að þeim verkum sem ÍAV er með á sinni könnu nú ljúki í september á þessu ári. Uppsagnir eru þegar byrjaðar og framhald verður þar á fram á haustið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert