Telur Samfylkingu ekki hafa beðið álitshnekki

Tölvumynd sem sýnir hugsanlegt álver í Helguvík.
Tölvumynd sem sýnir hugsanlegt álver í Helguvík.

 Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar segist ekki telja að Samfylkingin hafi beðið álitshnekki í umhverfismálum vegna staðfestingar Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra á ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismat álvers í Helguvík.  „Ég tel Samfylkinguna hafa mjög ábyrga og trúverðuga stefnu í umhverfismálum sem m.a. kemur greinilega fram í stjórnarsáttmálanum,” sagði hann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag.

„Því er hins vegar ekki að neita að möguleikar umhverfisráðherra voru mjög takmarkaðir í umræddu máli. Við verðum auðvitað að fara að lögum og það lagaumhverfi sem fyrri ríkisstjórnir hafa skapað hefur takmarkað aðkonu og völd ráðherra í slíkum málum. Við breytum því ekki í einu vetfangi og getum ekki sett afturgild lög. Við höfum hins vegar sagt að við viljum endurskoða þessi mál og stöndum við það.”    

Ágúst Ólafur segir Samfylkinguna einnig verða að sýna almenna ábyrgð með því að taka tillit til annarra þjóðfélagsþátta, svo sem atvinnuástands og efnahagslegra áhrifa, í umhverfismálum sem öðrum málum og að stefna hennar sé að samræma umhverfisvernd og önnur hagsmunamál þjóðfélagsins sem best.   

Á vef Náttúruverndarsamtaka Íslands er vitnað til orða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi fyrir rúmu ári en þar sagði hún:

„Ég sagði, virðulegur forseti, að það væri mikilvægt að taka í taumanna og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta og tekið raunverulega í taumanna þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar á eru næstu árum og þar vísa ég auðvitað til áformana um stækkun álversins i Straumsvík og álver í Helguvík." 

Þá segir á vefnum að hætt sé við að orð umhverfisráðherra um breytingar á stjórnarskrá og lögum til að styrkja náttúruvernd í landinu reynist einnig innistæðulaus því að í Helguvíkurmálinu hefur hún ekki notið stuðnings samráðherra sinna í Samfylkingunni og enn síður frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert