Árni: Gerist ekkert á næstunni

Lögreglan átti greinilega von á mótmælum atvinnubílstjóra fyrir utan Arnarhvol …
Lögreglan átti greinilega von á mótmælum atvinnubílstjóra fyrir utan Arnarhvol í dag. mbl.is/Kristinn

„Það eru auðvitað fjölmörg sjónarmið sem eru þarna uppi og þarf að samræma í þessu og sjónarmið þeirra sem gera út flutningabíla er eitt af því sem er með inni í myndinni," sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra eftir að hafa fundað með talsmönnum atvinnubílstjóra.

Árni sagði að niðurstöður nefnda sem skili af sér nú í vor yrðu notaðar til stefnumótunar fyrir ríkisstjórnina. Hann sagði að niðurstaða þeirrar vinnu yrði ekki að veruleika fyrr en á næsta haustþingi.

„Þetta er stórt verkefni og það þarf að vanda til verksins," sagði Árni.

„Þetta er ágætur tímapunktur fyrir þessa aðila til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þó að auðvitað megi deila um hvernig það er gert," sagði Árni. 

Um fund sinn með bílstjórunum sagði Árni: „Ég sagði þeim alveg klárt að þeir ættu ekki að bíða eftir loforðum frá mér um einhverja niðurstöðu í þessu. Það eru vikur, jafnvel mánuðir í að það komi niðurstaða í þessi mál og að þeir ættu ekki að gera ráð fyrir því að það verði komin ný löggjöf um þetta fyrr en eftir haustþingið," sagði Árni Mathiesen að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert