Dettifossvegur tilbúinn 2009

Dettifoss í klakaböndum.
Dettifoss í klakaböndum.

Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í gerð Dettifossvegar. Þetta er fyrri áfanginn af tveimur verkhlutum við gerð alls um 50 km Dettifossvegar. Mun þessi fyrri áfangi við lagningu vegarins liggja frá hringveginum norður að Dettifossi og verður um 21,1 km langur.

Að sögn Birgis Guðmundssonar umdæmisstjóra hjá Vegagerðinni er gert ráð fyrir að síðari hluti verksins, þ.e. frá Dettifossi og niður í Kelduhverfi, verði boðinn út næsta haust.

2,8 km vegtenging að Dettifossi

Fram kemur í auglýsingu um útboðið að í þessum áfanga eigi einnig að leggja um 2,8 km langa vegtengingu að Dettifossi og 1,3 km langa vegtengingu að Hafragilsfossi. Gerð verða tvö útskot og einn áningarstaður við Dettifossveg og jafnframt bílastæði við Hafragilsfoss og Dettifoss. Vegirnir skulu lagðir klæðningu sem og útskot, áningarstaður og bílastæði við Hafragilsfoss, en bílastæði við Dettifoss skal malbikað.

Verkinu öllu á að vera að fullu lokið 1. október 2009.

Samkvæmt frummatsskýrslu verður lagður heilsársvegur með bundnu slitlagi vestan Jökulsár með góðri tengingu í Vesturdal, Hólmatungur og að bílastæði við Dettifoss.

Tryggja heilsárs samgöngur

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta aðgengi að ferðamannastöðum, styrkja byggðarlög á Norðurlandi með bættu vegasambandi, tryggja heilsárssamgöngur og auka umferðaröryggi á svæðinu.

Lengi hefur verið þörf á nýjum vegi eða miklum endurbótum á núverandi vegum um svæðið, þ.e. á Uppsveitarvegi og Hólmatungnavegi.

Nyrsti hluti Uppsveitarvegar er uppbyggður malarvegur þar sem hann er innan byggðar í Kelduhverfi en að öðru leyti eru vegirnir að mestu niðurgrafnir malarvegir og eru einungis opnir yfir sumarið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert