Kynbundinn launamunur í kennslu 5%

Grunnskólakennarar telja að laun þeirra þyrftu að hækka um tæp 46% til að teljast mannsæmandi, leikskólakennarar um tæp 34%, tónlistarkennarar um tæp 30% og framhaldsskólakennarar um 24%. Þetta kemur m.a. fram í kjarakönnun, sem Capacent Gallup gerði fyrir Kennarasamband Íslands.

Meðalgrunnlaun framhaldsskólakennara í október 2007 voru tæpar 295.000 krónur en meðalheildarlaun þeirra tæpar 406.000 krónur. Meðalgrunnlaun leikskólakennara voru tæpar 262.000 krónur á sama tíma en meðalheildarlaun þeirra rúmar 297.000 krónur. Meðaltal grunnlauna tónlistarkennara voru tæpar 292.000 krónur en meðalheildarlaun þeirra rúmar 331.000 krónur. Meðalgrunn- og heildarlaun grunnskólakennara voru lægst meðal aðildarfélaga KÍ, grunnlaunin rúmar 242.000 krónur en heildarlaunin tæpar 286.000 krónur.

Kennarasambandið segir, að nokkur munur sé á heildarlaunum kynjanna þar sem karlmenn séu að jafnaði með 18% hærri laun en konur. Þegar búið sé að taka út áhrif vinnutíma, menntunar, starfsaldurs og aðra sambærilega þætti sé kynbundinn launamunur 5%.

Framhaldsskólakennarar hafa lengstan vinnutíma af kennarastéttunum, eða rúmlega 52 stunda vinnuviku. Þar á eftir koma grunnskólakennarar með rúmlega 46 stundir, tónlistarkennarar vinna rúmar 44 stundir á viku og leikskólakennarar tæpar 32 stundir. Karlmenn vinna að jafnaði um þremur stundum lengur á viku en konur.

Þegar spurt var um hversu mikið laun þyrftu að hækka til að teljast sanngjörn töldu grunnskólakennarar að laun þeirra þyrftu að hækka um tæp 46%, leikskólakennarar um tæp 34%, tónlistarkennarar um tæp 30% og framhaldsskólakennarar um 24%.

Rúmlega 2800 manns voru í úrtaki og svarhlutfall tæplega 65%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert