Sjálfbær þróun á Snæfellsnesi

Á dögunum voru úttektaraðilar á vegum Green Globe á ferð um Snæfellsnes til að meta árangur heimamanna á sviði sjálfbærrar þróunar. Úttektin er undanfari vottunar sveitarfélaganna fimm á nesinu og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls samkvæmt staðli Green Globe fyrir samfélög. Það mun svo koma í ljós á næstu vikum hvort Snæfellingar hafi staðist prófið. Þetta kemur fram á vef Snæfellsbæjar.

Meiri líkur en minni

Farið var yfir bráðabirgðaniðurstöður úttektarinnar á kynningarfundi með fulltrúum sveitarfélaganna að lokinni úttekt síðdegis á miðvikudag. Þar kom fram að enn mætti margt laga, en þó væru meiri líkur á því en minni að Green Globe myndi fallast á að veita Snæfellsnesi vottun fyrir sumarið. Það yrði stór áfangi, þar sem fram til þessa hafa aðeins 2 eða 3 samfélög í heiminum fengið vottun samkvæmt staðli Green Globe.

Undirbúningur sveitarfélaganna á Snæfellsnesi fyrir Green Globe vottunina hófst haustið 2002 að frumkvæði Guðlaugs heitins Bergmann á Hellnum. Guðlaugur leiddi starfið af mikilli eljusemi með dyggum stuðningi Guðrúnar konu sinnar, allt þar til hann lést í desember 2004. Stefán Gíslason hjá UMÍS ehf. Environice hefur unnið sem ráðgjafi heimamanna í málinu allt frá upphafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert