Garðinum lokað ef gesti ber að garði

Fríkirkjuvegur 11.
Fríkirkjuvegur 11. mbl.is/Frikki

Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær tillögu borgarstjóra þess efnis að tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna, um að leita allra leiða til að hætta við söluna á Fríkirkjuvegi 11, yrði vísað frá. Í máli borgarstjóra kom fram að söluferlið væri í farvegi og ætti að ljúka áður en núverandi meirihluti gæti haldið upp á hundrað daga afmæli.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, hóf umræðuna og benti meðal annars á að tilvonandi eigandi myndi geta lokað Hallargarðinum með lögregluvaldi þegar tignargestir væru boðnir þangað í heimsókn. Það gilti þó ekki um tyllidaga, t.d. sumardaginn fyrsta, 17. júní og menningarnótt.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri svaraði því til að meirihlutinn myndi tryggja að Hallargarðurinn yrði áfram almenningsgarður, en viðurkenndi þó að hugsanlegt væri að lokað yrði örfáa daga á ári.

Sinnaskipti borgarstjóra

Borgarfulltrúar minnihlutans komu einnig inn á sinnaskipti borgarstjóra í málinu og vísaði Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, m.a. í bókun Ólafs á fundi borgarráðs 12. október 2006. Þá sagði Ólafur: „Ég lýsi andstöðu við áform um sölu húseignarinnar að Fríkirkjuvegi 11. Húseignin með sína merku sögu verðskuldar að vera áfram í eigu almennings.“

Borgarstjóri var fremur ósáttur við málflutning minnihlutans og nefndi t.a.m. þær tillögur sem hann hefur flutt í borgarstjórn um verndun gamalla húsa. Þá sagðist hann ekki hafa skipt um skoðun þegar Fríkirkjuvegur 11 væri annars vegar. „Það er ekki meirihluti fyrir því að borgin reki áfram þetta hús, eins og ég hefði viljað og væri mín ósk,“ sagði Ólafur og einnig að brýnt væri að ljúka málinu sem fyrst, enda lægi húsið undir skemmdum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert