Ekið á heitavatnsleiðslu

Talsverðar skemmdir urðu á leiðslunni.
Talsverðar skemmdir urðu á leiðslunni.

Svo virðist sem stórum jeppa hafi verið ekið á heitavatnslögnina frá Nesjavöllum einhvern tíma á síðustu dögum  en um leiðsluna renna allt að 1,7 tonn á sekúndu af 85° heitu vatni. Fram kemur á vef Orkuveitu Reykjavíkur að lögnin hafi ekki rofnað en litlu hafi mátt muna og hefðu þeir sem í bílnum voru hugsanlega ekki þurft að kemba hærurnar.

Ekki er vitað hvenær óhappið varð því ekki var gert viðvart um það.  Starfsmenn Orkuveitunnar uppgötvuðu tjónið síðastliðinn mánudag. Bráðabirgðaviðgerð fór þá þegar fram til að verja stálpípuna, sem heita vatnið rennur um, gegn raka og tætingu.

OR segir, að álkápan utan um lögnina hafi rofnað og þenslumúffa skemmdist þar undir. Það þýði að loka verður fyrir vatnsrennsli um æðina á meðan viðgerð fer fram. Hún gæti tekið tvo daga. Þar sem um Nesjavallaæðina renna um 40% af því vatni, sem nýtt er til húshitunar á höfuðborgarsvæðinu, bíður varanleg viðgerð sumarsins, þegar heitavatnsnotkunin er í lágmarki. Þá þarf ekki að koma til skertrar afhendingar á heita vatninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert