Full alvara með viðræðunum

Frá Bolungarvík.
Frá Bolungarvík. mynd/bb.is

Meirihlutaviðræður A-lista og Sjálfstæðisflokks í Bolungarvík eru hafnar, en samstarfi K-lista og A-lista lauk í fyrradag með nokkrum hvelli. Sjálfstæðisflokkurinn hafði haldið um stjórnartaumana í bænum í nokkra áratugi þar til í síðustu kosningum.

Elías Jónatansson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir að full alvara sé með viðræðunum, þó hafi einungis stuttur fundur verið haldinn í gærkvöldi, en annar sé fyrirhugaður síðar í dag. Engar eiginlegar ákvarðanir hafi enn verið teknar. „Við hittumst á fyrsta fundi í gær og áttum stutt spjall saman,“ sagði Elías í viðtali við mbl.is um viðræðurnar sem nú standa yfir á milli fulltrúa A-lista og Sjálfstæðisflokks.

„Engar samningaviðræður fóru þar fram, en við munum hittast aftur í dag og fara yfir málin. Mönnum er hins vegar full alvara með þessum viðræðum.
Við erum núna að afla okkur gagna, höfum meðal annars óskað eftir ársreikningi bæjarfélagsins, og viljum sjá upplýsingar um stöðuna áður en lengra er haldið.“

Elías sagði að ekkert hefði enn verið rætt um hvort Grímur Atlason myndi víkja úr stóli bæjarstjóra ef viðræðurnar skiluðu árangri, fyrst þyrfti að ná saman um málefni áður en kæmi að einstökum þáttum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert