Kappaksturinn á Akranesi stöðvaður

Frá slysstaðnum á Vesturgötu um síðustu helgi.
Frá slysstaðnum á Vesturgötu um síðustu helgi.

„Þetta er eins og kappakstursbraut hérna og lögreglan samsinnir því,“ segir Anna María Pálsdóttir, íbúi við Vesturgötu á Akranesi, en bílslys varð þar um síðastliðna helgi, skammt frá staðnum þar sem banaslys varð fyrir skömmu er bíl var ekið á hús. Bæjaryfirvöld eru byrjuð að koma fyrir hraðahindrunum til að stöðva hraðakstur í bænum.

„Ég er með ungbarn svo að ég er oft vakandi á næturnar og ég var búin að heyra bíl keyra að minnsta kosti þrisvar á fleygiferð hérna framhjá en ég veit ekki hvort þetta er sami bíllinn. Ég var búin að heita því að færi hann framhjá einu sinni enn hringdi ég í lögregluna. En þegar ég er að leggjast út af og fara að sofa, heyri ég að bíll er farinn að gefa í. Ég hugsa sem svo að nú hringi ég en í því heyrist þessi hrikalegi smellur, þá hefur bíllinn lent á ljósastaur hérna hinum megin við götuna,“ segir Anna María.

Bíllinn hafnaði á öfugum vegarhelmingi og sneri í öfuga akstursstefnu. Ung stúlka sem ók bílnum komst sjálf út úr honum en lögreglubíl í venjubundnu eftirliti bar að í sama mund.

„Það eru tvær hraðahindranir hérna með stuttu millibili og á milli þeirra kitlar ökumenn í bensínfótinn,“ segir Anna. Hún hefur búið við Vesturgötuna í tvo mánuði og er þetta annar áreksturinn á þeim tíma. „Hvað gerist í næsta mánuði?“ spyr hún.

Akraneskappaksturinn stöðvaður

Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, tekur undir með Önnu Maríu. „Menn eru í kappakstri á öllum götum þar sem færi er og þar sem þeir halda að lögreglan geti ekki verið á ferðinni,“ segir hann. „Þetta eru okkar ágætu ungu menn og það er alveg ömurlegt að sjá til þeirra. Það er ekki nóg með að alltaf sé verið að taka þá og sekta um stórfé, það eru alltaf einhverjir sem halda áfram. Það er stutt síðan banaslys varð á svipuðum slóðum en fólk virðist ekki láta sér segjast. Þetta er alveg ömurlegt.“

Að sögn Gísla var unnið að því í gær og fyrradag að setja upp bráðabirgðahraðahindranir á þremur stöðum í bænum, meðal annars þar sem slysið varð um helgina. „Við erum að minnka hraðann með skiltum, þrengingum og hindrunum,“ segir hann.

Í hnotskurn
Þrjú ungmenni undir tvítugu slösuðust 28. nóvember í árekstri á horni Faxabrautar og Jaðarbrautar Tveir menn slösuðust í árekstri á Vesturgötu 18. febrúar sl. Annar lést skömmu síðar á sjúkrahúsi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka