Fagnar ráðningu Jakobs Frímanns


 Regína Ásvaldsdóttir skrifstofustjóri borgarstjóra, fagnar ráðningu Jakobs Frímanns í starf miðborgarstjóra í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér.

„1. Ég ráðlagði Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra að auglýsa starf miðborgarstjóra, en þar sem borgarstjóri kaus fremur að fá inn aðila með skömmum fyrirvara, vegna brýnna verkefna í miðborginni, þá staðfesti ég að það væri heimild fyrir því að ráða í störf sem væru 1 ár eða skemur.
 
2. Ég kom ekki að ráðningarsamningi Jakobs Frímanns Magnússonar en ég óskaði eftir að mannauðsskrifstofa Reykjavíkurborgar skoðaði launakjör hugsanlegs miðborgarstjóra. Ég benti á að það væri eðlilegt að líta meðal annars til kjara fyrrum miðborgarstjóra. Að öðru leiti annast mannauðsstjóri Reykjavíkurborgar ráðningar sem heyra beint undir borgarstjóra.
 
3. Ég tel að Jakob Frímann Magnússon verði farsæll í starfi sem miðborgarstjóri Reykjavíkur og fagna því að fá hann sem samstarfsmann á skrifstofu borgarstjóra."

Ólafur F. Magnússon, sagði eftirfarandi á fundi borgarstjórnar á þriðjudag: „Forseti, góðir borgarfulltrúar. Ef þessi tvö verkefni framkvæmdastjóra miðborgarmála með öllum þeim mjög svo umfangsmiklu verkefnum sem hann þarf að sinna og verkefnisstjóri á skrifstofu borgarstjóra væru með þeim hætti sem borgarfulltrúi Dagur B. Eggertsson lýsir, þá geng ég út frá því að skrifstofustjóri borgarstjóra hefði bent borgarstjóranum í Reykjavík á það.

Það var sérstök ábending skrifstofustjórans að hér væri um skammtímaráðningu að ræða og þyrfti ekki að auglýsa hana og hann var hafður með í ráðum frá fyrstu stundu í þessu máli og hefur raunar líka komið að ráðningu verkefnisstjóra inn á skrifstofuna, þar sem ég kom nú minnst að því máli frá upphafi til enda, en treysti mínu skrifstofustjóra og sú staða var ekki auglýst."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert