Krytur um hæð vatnsborðs

Landeigendur við Lagarfljót átelja Rafmagnsveitur ríkisins harðlega fyrir yfirgang og valdníðslu með því að halda vatnsborði Lagarfljóts enn einu sinni yfir umsömdum hæðarmörkum.

Segir Pétur Elísson, formaður Félags landeigenda við Lagarfljót, vatnsborðinu stýrt með lokum við Lagarfossvirkjun. Það standi nú hátt og von sé á meira vatni vegna vorleysinga og hlýinda undanfarið. Vatn er að sögn Péturs farið að ganga upp í tún hjá bændum við Fljótið. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, segir fyrirtækið í einu og öllu hafa fylgt gerðum samningum um vatnsstýringu og lokurnar hafi verið opnaðar að fullu 7. maí sl.

Í ályktun aðalfundar Félags landeigenda við Lagarfljót, sem haldinn var 6. maí sl., segir að sá samningur sem gerður hafi verið á sínum tíma um vatnshæðarstýringu vegna Lagarfossvirkjunar sé í fullu gildi, en í honum fólst m.a. að útrás skyldi að fullu opnuð við Lagarfoss 1. maí ár hvert, en svo hafi ekki verið gert nú. Félagið krefst þess að RARIK standi við gerða samninga uns samist hefur um annað.

Í yfirlýsingu frá RARIK vegna ályktunar landeigenda segir m.a. að fyrirtækið og landeigendur hafi samið um vatnsstýringar í tengslum við gerðardóm sem mat bætur til landeigenda. Á þeim tíma hafi verið klapparhaft ofan við lokurnar í Lagarfossvirkjun, sem sprengt var burt sl. haust sem mótvægisaðgerð við Kárahnjúkavirkjun. Tilgangur þessarar aðgerðar var að auka burðargetu farvegarins í flóðum í Lagarfljótinu en hún eigi ekki að hafa nein áhrif á samningssambandið milli RARIK og landeigenda. Lokum hafi verið stýrt þannig að vatnsstaðan væri sem líkust því sem var áður en klapparhaftið var sprengt, nema í flóðum þegar allar lokur eru opnaðar. Samkomulag hafi verið þar um.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert