Hagsmuna hundeiganda ekki gætt

Hæstiréttur hefur ógilt úrskurð Héraðsdóm Suðurlands um að hundur, sem talinn er hafa bitið barn, verði afhentur lögreglunni. Segir í dómi Hæstaréttar, að héraðsdómur hafi fallist á kröfu lögreglunnar án þess að eiganda hundsins væri gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að lögreglan hafi í lok apríl fengið tilkynningu um að hundurinn hefði bitið barn og greinileg bitför hafi verið á hendi barnsins og gat á peysu þess.

Eigandi hundsins hafði ekki undanþágu frá bæjaryfirvöldum til hundahalds og var hundurinn óskráður. Hann neitaði hins vegar að afhenda lögreglu hundinn nema gegn dómsúrskurði en lögreglan vildi fjarlægja hundinn og láta lóga honum.

Hæstiréttur vísar til Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrárinnar þar sem staðfest sé sú meginregla, að eigandi þeirra réttinda og hagsmuna, sem fjallað sé um fyrir dómi, eigi þess kost að gæta þeirra við meðferð máls, nema sérstakar ástæður mæltu samkvæmt eðli máls gegn því, svo sem rannsóknarhagsmunir í opinberu máli.

Hæstiréttur taldi að þessarar meginreglu hefði ekki verið gætt þar sem hundeigandanum hafi ekki verið gefinn kostur á því að gæta hagsmuna sinna í málinu. Því var úrskurðurinn felldur út gildi og málinu vísað heim í hérað á ný.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert