Tilboði Eyjamanna ekki svarað enn

Vestmannayjaferjan, sem Eyjamenn hafa boðið.
Vestmannayjaferjan, sem Eyjamenn hafa boðið. Ljósmynd/Harald M. Valderhaug

Nýju tilboði, sem Vinnslustöðin og Vestmannaeyjabær sendu samgönguráðuneytinu á föstudag um rekstur og smíði Bakkafjöruferju, hefur ekki verið svarað en tilboðið gilti fram til hádegis í dag. Elliði Vignisson, bæjarstjóri, segist að vonum óánægður með að ekkert hafi heyrst í ríkinu en segist reikna með að lögmætar ástæður séu fyrir því.

Upphaflegt tilboð Eyjamanna í ferjuna hljóðaði upp á 16,5 milljarða króna en nýja tilboðið var upp á 14,5 milljarða að sögn Elliða. Miðað er við sama skip og í fyrra tilboðinu en ýmis annar kostnaður hefur verið lækkaður eftir viðræður við ríkið. Þá er gert ráð fyrir því, að breytingar gætu orðið á ferjunni og búnaði hennar eftir því sem viðræðum vindur fram.

Elliði sagði, að hann ætti von á að heyra í fulltrúum samgönguráðuneytisins enda hafi þeir átt í góðum samningaviðræðum við þá. „Þetta er eitt mesta hagsmunamál Eyjamanna frá upphafi og ég veit að ríkið hefur skilning á því," sagði Elliði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert