Skortur á orku getur orðið vandamál

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir að hugsanlega þurfi að hafa áhyggjur af skorti á orku nú þegar hætt hefur verið við Bitruvirkjun: „Það er ljóst að erlend stórfyrirtæki hafa áhuga á að setja upp framleiðslu hér á landi, mengunarlausa en orkufreka stóriðju, sem hugsanlega myndi skapa bæði verðmæti og störf. Við þá stöðu sem núna er komin upp gæti slegið í bakseglin,“ segir hann.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og fresta öllum frekari framkvæmdum á svæðinu. Kom ákvörðunin í framhaldi af áliti Skipulagsstofnunar þar sem virkjunin er sögð óviðunandi, m.a. vegna verulegra, neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag og ferðaþjónustu.

Össur telur að atburðir gærdagsins muni ekki hafa mikil áhrif á þróun jarðgufuvirkjana hér á landi: „Ég er ósammála forstjóra Orkuveitunnar um það, en hann heldur að þetta muni hafa mikil áhrif og að jafnvel verði illmögulegt að halda áfram nýtingu jarðhita,“ segir Össur. „Sérstakar aðstæður tengjast Bitru, sem felast í því að virkjunarstaðurinn er mjög nálægt þéttbýliskjarna þar sem þorri íbúa hefur lagst þungt gegn virkjuninni af ýmsum ástæðum.“

Raforkuframleiðsla með gufuafli hér á landi hefur tvöfaldast frá árinu 2005. Í júlí á síðasta ári hafnaði iðnaðarráðherra umsóknum um leyfi til rannsókna á möguleikum virkjunar gufuafls í Brennisteinsfjöllum, Kerlingafjöllum og víðar. Össur segir að þeirri ákvörðun hafi ráðið að um ósnortin svæði var að ræða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert