Flísum rignir í Skuggahverfinu

Margar flísar hafa losnað af byggingunum.
Margar flísar hafa losnað af byggingunum. mbl.is/Frikki

Flísar á blokkum í Skuggahverfinu eru enn að falla af. Vitni sem 24 stundir ræddu við fullyrða að flísarnar hafi fallið úr nokkurri hæð og brotnað á gagnstéttinni neðan við blokkirnar. Hver flísanna er um fimm kíló á þyngd.

Magnús Sædal Svavarsson, byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar, segir málið mikið áhyggjuefni. „Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að flísarnar væru enn að falla af húsunum því að ég hélt að þær sem væru lausar eða skemmdar hefðu verið teknar. Þetta mál er nú þannig að þeir aðilar sem eru að byggja þarna hafa ekki upplýst mig um hvað sé á seyði. Þegar svona mál koma upp þá finnst mér að þeim beri siðferðisleg skylda til að upplýsa byggingarfulltrúa um hvað sé að gerast, þótt það standi ekki í reglugerð. En það er alveg farið að koma að því að ég fari að ganga á eftir þeim svörum.“

Verða klæddar aftur í sumar

Í desember 2006 féllu þrjár flísar af blokkunum og í kjölfarið voru hátt í 200 til viðbótar fjarlægðar sem varrúðarráðstöfun. G. Oddur Víðisson, framkvæmdastjóri 101 Skuggahverfis sem hannaði og byggði blokkirnar, segir reglulegt eftirlit vera með þeim. Hann vill ekki útiloka að brotnu flísarnar á götunni séu vegna skemmdarverka, en slík hafi áður verið unnin á blokkunum.

„Það er náttúrlega erfitt að sanna á hvorn veginn þetta gerist. En við erum að gera okkar besta í að viðhalda þessu þannig að þetta skemmi ekki út frá sér og hvað þá detti á jörðina úr einhverri hæð. Það er verið að fara í flísaklæðningu á áfanga tvö fljótlega með verktakanum sem þar er. Við ætlum að reyna að nýta okkur þá samfellu í framkvæmdinni til að klæða fyrsta áfangann aftur.“

Oddur segir að búið sé að stefna aðalverktakanum, Eykt hf., og fleirum fyrir hugsanlega handvömm eða hönnunargalla á flísunum. Niðurstaða liggi þó ekki fyrir. Gunnar Valur Gíslason, forstjóri Eyktar, hafnaði því alfarið að bera ábyrgð á því ástandi sem nú væri á blokkunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert