Líklegt að haugurinn hafi verið rændur

Aðeins fannst hluti af beinagrind manns sem lagður hefur verið til hinstu hvílu í bát við bæinn Hringsdal í Arnarfirði og nánast ekkert haugfé fannst. Stjórnandi rannsóknarinnar telur líklegt að haugurinn hafi verið rændur fyrir mörgum öldum.

Fornleifastofnun Íslands hefur annast rannsóknir í Hringsdal í þrjú sumur eftir að þar fannst kumlateigur fyrir tilviljun. Rannsóknin í sumar hefur staðið yfir í þrjár vikur og lauk um helgina.

Bátkuml eru algeng í Norður-Evrópu, meðal annars í Noregi, en hér hafa einungis fundist sjö slíkar grafir af liðlega 300 sem rannsakaðar hafa verið, að sögn Adolfs Friðrikssonar, forstöðumanns Fornleifastofnunar Íslands, sem telur fundinn mikilvægan.

Viðurinn sem báturinn var smíðaður úr er að mestu horfinn en eftir liggur bátasaumurinn. Fyrir helgi voru fundnir rúmlega 300 rónaglar í gröfinni. Að sögn Adolfs fannst ekkert haugfé nema einn lítill járnhlutur sem ekki er vitað hvers eðlis er. Þá vantaði höfuðkúpu mannsins sem þarna hefur verið grafinn og fleiri bein. Telur Adolf líklegt að haugurinn hafi verið rændur áður en kumlateigurinn fór undir hvítan fjörusand sem hefur varðveitt hann síðan.

Fimm kuml hafa fundist í Hringsdal sem er fyrsti heiðni greftrunarstaðurinn sem fundist hefur í Arnarfirði og þau kunna að vera fleiri, að sögn Adolfs sem hefur áhuga á að rannsaka staðinn frekar og leita víðar í Arnarfirði. Arnfirðingafélagið stóð fyrir rannsókninni og hefur komið fram áhugi á að gera kumlateiginn í Hringsdal aðgengilegan fyrir fróðleiksfúst ferðafólk og setja jafnframt upp sýningu á Bíldudal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert