Deilt um litaða olíu á björgunarsveitabílum

Bílar Björgunarfélags Akraness. Myndin er tekin af heimasíðu félagsins.
Bílar Björgunarfélags Akraness. Myndin er tekin af heimasíðu félagsins.

Deilur kunna að vera í uppsiglingu milli Vegagerðarinnar og Landsbjargar en eftirlitsmenn Vegagerðarinnar stöðvuðu bíl frá Björgunarfélagi Akraness í gær, tóku sýni af eldsneytinu í bílnum og skrifuðu skýrslu um málið. Landsbjörg segir alveg ljóst, að lögum samkvæmt megi nota svonefnda litaða olíu á björgunarsveitabíla.

Sjö björgunarsveitamennirnir voru á leið í einum bíl frá Gufuskálum á Snæfellsnesi, þar sem þeir höfðu verið við æfingar,  til Akraness þegar eftirlitsmennirnir stöðvuðu þá við Vegamót og gerðu athugasemdir við að lituð olía væri á bílnum. Sveinn Ingi Lýðsson, staðgengill yfirmanns vegaeftirlits Vegagerðarinnar, hafði ekki fengið skýrslu um atvikið í hendur en sagði ljóst, að eftirlitsmennirnir hafi rétt til að stöðva hvaða bíla sem er og skoða eldsneytið.

Að sögn Ólafar Snæhólm, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, er skýrt í lögum að heimilt sé að nota litaða olíu á bifreiðir í eigu björgunarsveita. Ásgeir Örn Kristinsson, formaður Björgunarfélags Akraness segir hins vegar að eftirlitsmenn Vegagerðarinnar hafi túlkað reglurnar þannig, að aðeins megi nota litaða olíu á björgunarsveitabíla þegar verið sé að nota þá við björgunarstörf en ekki við æfingar eða fjáröflunarverkefni. Slíkt sé fráleitt því ekki sé hægt að skilja á milli björgunaraðgerða og æfinga eða annars starfs sveitanna. Björgunarsveitin sinni samfélagsþjónustu við almenning af fullum heilindum og þetta hljóti að vera mistök sem verði leiðrétt. 

Sveinn Ingi sagði, að kvartanir hafi borist yfir því að björgunarsveitir hafi tekið að sér verkefni svo sem bílabjörgun, í samkeppni við einkafyrirtæki og noti þá litaða olíu. Sveinn tók fram, að engin slík tilvik væru staðfest.  

Tólf manns starfa við umferðareftirlit Vegagerðarinnar og hafa bækistöðvar í Reykjavík, á Akureyri og í Reyðarfirði. Þeir fylgjast m.a. með því hvort lagaákvæði um hvíldartíma og olíugjald séu virt, sem og reglur um ásþunga, frágang á farmi og fleira. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka