Farþegar upplýstir um bilun í flugvél til Alicante

Boeing 737-800 þota JetX
Boeing 737-800 þota JetX mbl.is/Páll Ketilsson

Bilun í flugvél flugfélagsins JetX veldur því að miklar tafir hafa orðið á flugi Heimsferða til Alicante á Spáni en vélin átti að fara í loftið á miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá Berglindi Guðmundsdóttur hjá JetX mun Icelandair sjá um flugið og er stefnt að því að vélin fari af stað klukkan 16 í dag. 

Að sögn Berglindar er bilaða vélin í Palma og var því ákveðið að semja við Icelandair um að annast flugið. Berglind segir að starfsfólk Heimsferða hafi haft samband við alla þá sem áttu bókað flug til Alicante og því rangt sem fram kom í hádegisfréttum RÚV að farþegar hafi ekki verið upplýstir um tafirnar. 

Berglind segir að þeim farþegum sem voru lagðir af stað út á flugvöll í gærkvöldi hafi verið boðin gisting á hóteli í Keflavík.

Farþegar Heimsferða, sem hafa haft samband við mbl.is, sem bíða í  Alicante eftir flugi til Íslands segja að margir farþeganna þar hafi beðið eftir fluginu frá því snemma í morgun en áætlað var að vélin færi í loftið klukkan 6:45 frá Alicante.

Segir í tölvupósti frá einum farþega í Alicante að einhverjir farþegar hafi fengið  tilkynningu um seinkun seint í gærkvöldi en ekki allir. Fleiri farþegar, sem hafa haft samband við mbl.is, fullyrða einnig að þeir hafi ekki fengið að vita af töfunum fyrr en komið var út á flugvöll í gærkvöldi.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert