Hagkaup og Nóatún hækka mest

mbl.is/Ómar

Mest hækkun á vörukörfu ASÍ milli vikna að þessu sinni var í stórmörkuðunum Hagkaupum og Nóatúni en verðlagseftirlit ASÍ birtir nú breytingar á verði innkaupakörfu heimilisins í stærstu matvöruverslunarkeðjunum 7. vikuna í röð.

Í Hagkaupum hækkaði verð körfunnar um 2,1% á milli 3. og 4. viku í maí og má rekja þá hækkun að mestu til hækkana á verði kjötvara og grænmetis og ávaxta í vörukörfunni.

Í Nóatúni hækkaði verð innkaupakörfunnar um 1,9% á milli vikna og valda hækkanir á verði grænmetis og ávaxta þar mestum breytingum en einnig hækkun á kjöt- og mjólkurvörum. Í Samkaupum-Úrval sem einnig er í flokki stórmarkaða var verð vörukörfunnar nánast óbreytt á milli vikna.

Kaskó hækkaði mest af lágvöruverðsverslunum

Í lágvöruverðsverslunum hækkaði verðið á vörukörfu ASÍ mest í Kaskó, um 1,3%, á milli mælinga í 3. og 4. viku maímánaðar. Mest áhrif til hækkunar hefur verðhækkun á brauði og kornvörum, mjólkurvörum og á liðnum ýmsar matvörur í vörukörfunni.

Í Krónunni breyttist verð körfunnar lítið á milli vikna eða um 0,3% og í Nettó var verðið óbreytt á milli mælinga. Verð innkaupakörfunnar lækkaði hins vegar í Bónus um 0,7% á milli vikna sem má að mestu leyti rekja til lækkunar á verði kjötvara í körfunni.

10/11 leiðir hækkanir í klukkubúðum

Í klukkubúðunum hækkaði vörukarfan mest í verslunum 10-11 um 1,1% á milli vikna og veldur hækkun á verði kjötvara þar mestum breytingum en einnig hefur verðhækkun á drykkjarvörum í körfunni nokkur áhrif. Í 11-11 er verð vörukörfunnar nánast óbreytt á milli vikna en í Samkaupum-Strax lækkar verðið hins vegar um 1,7% sem að langstærstum hluta stafar af lækkun á kjötvörum í innkaupakörfunni, samkvæmt frétt á vef ASÍ.

Verðlagskönnun ASÍ í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert