Féð renni til góðgerðamála

Þorsteinn Hjaltason, héraðsdómslögmaður á Akureyri, sem sýknaður var í gær í Hæstarétti af ákæru fyrir umboðssvik í svonefndu heimabankamáli, vill að ágóði gjaldeyrisviðskiptanna, sem málið snérist um renni til líknarfélaga.


Þorsteinn var í gær ásamt bróður sínum sýknaður af ákæru fyrir að hafa með umboðssvikum svikið út fé af Glitni í gjaldeyrisviðskiptum í heimabanka. Alls voru fjögur ákærð í málinu og högnuðust þau um alls 30 milljónir króna, frá tveimur og hálfri til 24 milljóna króna hver.  Þorsteinn telur ríkislögreglustjóra hafa féð undir höndum og vill gjarnan að það renni til góðgerðamála svo eitthvað gott hljótist af málinu.

Þorsteinn segir þá bræður mjög sátta við dóminn og að hann komi ekki á óvart þótt hann hafi að sjálfsögðu ekki verið í rónni þar til niðurstaða fékkst.

Hann segir að strax eftir atburðinn hafi þau sem hlut áttu að máli boðist til að greiða bankanum til baka ágóða viðskiptanna og ekki rengt bankann um að kerfisvilla hafi átt sér stað. Hins vegar liggi það nú fyrir að ósannað sé að um villu hafi verið að ræða. „Þeir sögðu okkur að kerfisvilla hefði komið upp og við buðumst þá til þess að skila peningunum. Við bjuggumst alls ekki við því að málinu myndi vera haldið áfram.“

Þorsteinn segir hópinn ekki hafa verið vanan því að stunda gjaldeyrisviðskipti, þetta hafi verið í fyrsta skipti sem þau reyndu fyrir sér á þeim vettvangi. Þau hafi fengið ákveðin tilboð frá bankanum og gengið að þeim. „Það er líka athyglisvert að í samningi Glitnis segir að ef einhver mistök eða kerfisvilla eigi sér stað hjá bankanum megi bakfæra viðskiptin en það var hins vegar aldrei gert. Bendir það ekki til þess að þeir hafi ekki talið að þeir hefðu heimild til þess?“ spyr Þorsteinn.

Næstu skref hjá Þorsteini eru því þau að hafa samband við Glitni og athuga hvort áhugi sé fyrir því að milljónirnar renni til líknarmála.

Þorsteinn Hjaltason héraðsdómslögmaður
Þorsteinn Hjaltason héraðsdómslögmaður mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert