Hæstiréttur hafnaði endurupptöku

„Mér finnst þetta forkastanleg vinnubrögð. Ég get ekki sagt annað og ég held að Hæstiréttur ætti að fara að taka sig saman í andlitinu og fara að dæma eftir lögfræði, en ekki eftir pólitík. Við Erlingur tölum einum rómi um þetta,“ segir Örn Snævar Sveinsson, fyrrverandi skipstjóri á bátnum Sveini Sveinssyni.

Hæstiréttur synjaði beiðni um endurupptöku áfrýjunar gegn íslenska ríkinu líkt og hann og Erlingur Sveinn Haraldsson höfðu farið fram á. Ósk þeirra um endurupptöku byggðist á því að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ályktaði fyrir áramótin að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið bryti í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar.

Íslenska ríkið fékk 180 daga til að svara álitinu og rennur sá frestur út í næstu viku, miðvikudaginn 11. júní nk.

Örn Snævar telur Hæstarétt ekki hafa tekið tillit til röksemda áfrýjenda.

„Hæstiréttur ýtir til hliðar bæði lögfræði og ég tala nú ekki um stjórnarskrána. Hún er bara virt að vettugi. Við óskuðum eftir því að Hæstiréttur tæki málið fyrir að nýju. Við töldum að við hefðum ekki fengið réttláta dómsmeðferð. Hæstiréttur skoðar málið ósköp lítið og staðfestir bara dóm héraðsdóms,“ segir Örn Snævar.

Létu reyna á lögin

Forsaga málsins er sú að í marsmánuði 2003 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Vestfjarða í máli íslenska ríkisins gegni Erni Snævari og Erlingi Sveini Haraldssyni um að þeir hefðu gerst sekir um brot á fiskveiðistjórnunarlögum, eftir að þeir létu reyna á lögin.

Örn Snævar sótti á sínum tíma um kvóta í samræmi við aflareynslu sína sem togaraskipstjóri, í félagi við Erling. Umsóknum þeirra var hafnað og í kjölfarið tóku þeir ákvörðun um að róa kvótalausir á Sveini Sveinssyni til að fá málið fyrir dóm. Þeir voru svo sakfelldir í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir að hafa veitt kvótalausir og var sá dómur síðan staðfestur fyrir Hæstarétti, sem fyrr segir í marsmánuði 2003.

Eftir að álit mannréttindanefndar SÞ lá fyrir um áramótin töldu þeir Örn Snævar og Erlingur tilefni til að óska eftir endurupptöku málsins, beiðni sem Hæstiréttur hefur nú hafnað.

Í hnotskurn
» Undir lok síðasta áratugar veiktist Örn Snævar og þegar hann náði heilsu á ný keypti hann bát í félagi við Erling Haraldsson og Magnús Áskelsson sem þeir félagar skírðu Svein Sveinsson.
» Örn Snævar sótti þá um kvóta í samræmi við aflareynslu og til vara að fá að veiða að eigin vild í þrjú ár og að besta árið yrði haft til hliðsjónar við úthlutun kvóta bátsins.
» Umsókninni var hafnað.
» Næstu umsókn þeirra um byggðakvóta var líka hafnað og nokkrum mánuðum síðar létu þeir Erlingur reyna á lögin með róðrum haustið 2001.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert