Hanna Birna oddviti strax

Hanna Birna Kristjánsdóttir verður oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur strax í stað Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Vilhjálmi en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag verður Hanna Birna borgarstjóri á næsta ári. 

Yfirlýsing Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er svohljóðandi:

„Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins féllst í dag á tillögu mína um að Hanna Birna Kristjánsdóttir taki við af mér sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Sú breyting tekur gildi þegar í stað, en að loknu sumarleyfi tekur Hanna Birna við formennsku í borgarráði en ég við embætti forseta borgarstjórnar og starfa áfram að hagsmunamálum borgarbúa og stefnumálum Sjálfstæðisflokksins.

Í lok kjörtímabilsins árið 2010 hef ég unnið fyrir Reykvíkinga í 28 ár eða tæpan starfsaldur. Eins og ég hef lýst yfir áður mun ég ekki gefa kost á mér til forystu í borgarmálum eftir það. Í ljósi þess og til að eyða allri óvissu tel ég eðlilegt að Hanna Birna, sem var í 2. sæti framboðslistans í kosningunum 2006, taki við störfum oddvita og óska ég henni velfarnaðar í því mikilvæga hlutverki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert