10 mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í 10 mánaða fangelsi og svipt hann ökuréttindum ævilangt fyrir að aka ítrekað undir áhrifum áfengis. Maðurinn var m.a. handtekinn í Vestmannaeyjum í febrúar árið 2006 og mældist áfengismagn í blóði hans 2,81‰.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi frá árinu 1986 hlotið fimmtán refsidóma fyrir ölvun við akstur og með fjórtán þeirra jafnframt dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti.  Síðast var hann  dæmdur í Hæstarétti í sex mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir að aka ölvaður og sviptur ökurétti.

Afar erfitt reyndist að ná sambandi við manninn til að birta honum ákæru eða taka af honum skýrslu fyrir dómi. Hann  hafði ekki samband við verjanda sinn og sinnti ekki símhringingum og símskilaboðum.  Dómari ákvað að líta svo á að maðurinn kysi að tjá sig ekki frekar um sakargiftir en hann hafði þegar gert  fyrir dómi með því að neita sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert