SUS mótmælir aldurstakmarki á útihátíðum

Gestir á Írskum dögum á Akranesi árið 2006.
Gestir á Írskum dögum á Akranesi árið 2006. mbl.is/Sigurður Elvar

 Ungir sjálfstæðismenn hafa sent bréf til þriggja sveitarfélaga, sem hafa viðrað hugmyndir um að ungu, lögráða fólki verði ekki leyft að gista á tjaldstæðum bæjanna nánar tilgreinda daga, nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum um fjölskyldumynstur.

Þessar sveitastjórnir eru Akraneskaupstaður, sem vill ekki að ungt fólk sé á tjaldstæði bæjarins á svokölluðum Írskum dögum, Eyjafjarðarsveit, sem leyfir ekki yngri gestum en 25 ára að gista á tjaldsvæði sveitarinnar í kringum 17. júní og Akureyri, þar sem tjaldsvæði bæjarins eru lokuð á sama tíma fyrir yngra fólk en 20 ára.

SUS hvetur sveitarfélögin þrjú eindregið til þess að draga þessar hugmyndir til baka, með þeim rökum meðal annars að auðveldlega mætti ná markmiðum viðkomandi sveitastjórna um fjölskylduskemmtun með minna íþyngjandi aðgerðum og lagastoð skorti til þess að meina lögráða fólki um aðgang að tilteknum stöðum. 

„Það er óforsvaranlegt að ungu fólki, sem er saklaust af öllu nema æsku sinni, skuli í raun refsað fyrirfram vegna ótta um að einhverjir einstaklingar úr þeirra hópi kunni að valda ónæði á skipulögðum samkomum," segir m.a. í tilkynningu frá SUS, sem segist munu fylgja þessum málum eftir með viðeigandi hætti og aðgerðum ef gripið verði til þessara úrræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert