Úthafskarfaveiðar ganga illa.

Úthafskarfaveiðar hafa gengið illa frá því að veiðar hófust eftir …
Úthafskarfaveiðar hafa gengið illa frá því að veiðar hófust eftir sjómannadag. Mbl.is/Árni Sæberg

Fimm íslensk skip eru nú á karfaveiðum í og við íslensku landhelgislínuna úti á Reykjaneshryggnum. Hafa aflabrögðin verið slök frá því að veiðar hófust að nýju eftir sjómannadaginn.

HB Grandi er með þrjú skip á karfaveiðunum á Reykjaneshryggnum, Þerney RE, Venus HF og Helgu Maríu AK, og að sögn Birkis Hrannars Hjálmarssonar, rekstrarstjóra togara fyrirtækisins, hafa aflabrögðin verið döpur. Þetta kemur fram á vef HB Granda.

„Veiðin var þokkaleg hjá Helgu Maríu AK fyrstu tvo dagana eftir að skipið kom á miðin eftir sjómannadaginn og þá voru að fást upp í tvö tonn á togtímann. Hin skipin tvö komu seinna út og þegar þau komu á svæðið var veiðin dottin niður. Aflinn hefur verið undir tonni á togtímann síðustu tvær vikurnar og reyndar hefur veiðin farið alveg niður í hálft tonn á togtímann,“ segir Birkir Hrannar en hann upplýsir að bræla hafi verið á miðunum. Í gær skánaði veðrið en hið sama er ekki hægt að segja um aflabrögðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert