Impregilo ekki beitt dagsektum

Mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Verktakafyrirtækið Impregilo verður ekki beitt dagsektum af Heilbrigðiseftirliti Austurlands vegna brota á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtækið girti af skólpmengað svæði áður en til sekta kom.

Fyrir rúmri viku var Impregilo sent áminningarbréf í fimm liðum. Í bréfinu er fyrirtækið áminnt fyrir endurtekna olíumengun, skort á viðbrögðum við olíumengun og brot á reglum um meðferð spilliefna. Var skólpið metið hættulegt dýrum á svæðinu. Krafist var úrbóta innan tveggja vikna vegna fokefnis og úrgangs á víðavangi og girðinga í kringum skólpmenguð svæði við Aðgöng 1, 2 og aðalbúðir. Sömuleiðis var þess krafist að girðingum yrði viðhaldið í þrjú ár eftir að starfsemi lýkur.

Ómar Valdimarsson, talsmaður Impregilo á Íslandi, sagði að starfsmönnum hefði verið falið í vetur að hreinsa upp rusl en eftir að snjóa hefði farið að létta hefði komið í ljós meira. Væri eðlilegt að rusl væri að koma meira fram núna. Aukið rusl og skólp væri einnig eðlilegur fylgifiskur stórra verkefna eins og það að flytja vinnubúðir burt væri. „Fyrirtækið mun efla hreinsunarstarf í samstarfi við Heilbrigðiseftirlitið. Við höfum verið í góðu samstarfi við þá hingað til og verðum það áfram.“

Ómar sagði að girðingum yrði viðhaldið af fyrirtækinu meðan það starfaði enn hér á landi en eftir að það færi af landi brott yrði verkið falið undirverktökum. Impregilo hygðist að sjálfsögðu bera áfram ábyrgð á hreinsun svæðisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka