Enginn særingamaður hér

Enginn kaþólskur prestur hefur verið útnefndur særingamaður hér á landi þótt ákvæði sé um það í kirkjulögum að særingamaður eigi að vera í öllum biskupsdæmum. Kaþólsku kirkjunni hér hefir borist beiðni um aðstoð.

„Við höfum fengið ýmsar beiðnir en mjög sjaldan. Það er hins vegar ekki vitað að farið hafi verið út í særingar hér, alla vega ekki á síðustu öld. Fyrst þyrfti að rannsaka allt gaumgæfilega áður en farið væri út í særingar og það yrði ekki gert nema með leyfi frá biskupnum ef hann myndi ekki framkvæma særingarnar sjálfur,“ segir séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar hér.

Kaþólska kirkjan í Noregi fær á hverju ári beiðni um aðstoð frá fólki sem telur sig andsetið og hefur kirkjan nú útnefnt sérstakan særingamann að skipun páfans í Róm. Hefur sænskur prestur verið útnefndur, að því er norskir fjölmiðlar greina frá. Samkvæmt frásögn Aftenposten er það örsjaldan sem farið er með særingabænir í Noregi. Á heimasíðu kaþólsku kirkjunnar í Noregi er greint frá ábendingum kaþólska biskupsins í Ósló telji prestarnir í biskupsdæminu þörf á særingabænum. Meðal annars er bent á nauðsyn vottorðs frá lækni og/eða sálfræðingi um sjúkdóma og sjúkdómasögu viðkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert