Ólafur veiddi fyrsta laxinn

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri lukkulegur með fyrsta lax sumarsins úr …
Ólafur F. Magnússon borgarstjóri lukkulegur með fyrsta lax sumarsins úr Elliðaánum í morgun. Einar Falur Ingólfsson

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri Reykjavíkur, setti í fyrsta lax sumarsins á Breiðunni neðst í Elliðaánum og nokkrum mínútum síðar hafði hann landað lúsugri nýgenginni hrygnu sem vóg um sex pund.

"Þetta var skemmtilegt!" sagði hann lukkulegur eftir að laxinn var kominn á land með aðstoð Ásgeirs Heiðars leiðsögumanns.

Borgarstjóri hóf veiðar samkvæmt venju upp úr sjö, með því að renna maðki í Sjávarfoss, með á annan tug áhorfenda á bakkanum. Það skilaði engum árangri og þá var haldið niður á Breiðu, þar sem sést höfðu laxar. Þeir voru ekki í tökustuði í sólskininu og síðan var Breiðan hvíld til klukkan átta er Ólafur mætti aftur ásamt fylgdarliði, og þá sást að þriðji laxinn var mættur. Einn þeirra gein við maðkinum og var kominn á land eftir snarpa viðureign.

"Þessi lax er tileinkaður 30 ára afmæli Magnúsar Sigurðssonar veiðivarðar, frænda míns, við ána," sagði Ólafur þegar hann hampaði laxinum en þess má geta að Magnús Ólafsson, faðir borgarstjóra, var á sínum tíma formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert