11 ára stelpur hafa áhyggjur af þyngd

Fimmtu hverri 11 ára íslenskri stelpu finnst hún vera of feit, eða 20%, en 38% 15 ára stelpna. Íslensku stelpurnar telja sig, eins og stelpur í mörgum öðrum löndum, miklu feitari en þær eru í raun og veru.

Þetta er meðal þess sem kom fram í könnunum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilsu og líðan ungmenna í 37 löndum.

Raunveruleg þyngd íslenskra stelpna, miðað við alþjóðlega líkamsþyngdarstuðulinn BMI fyrir unglinga, er svipuð og hjá mörgum þjóðum, að sögn Þórodds Bjarnasonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, sem stjórnaði rannsókninni á Íslandi. „Um 12% 15 ára íslenskra stelpna eru of feit, sem er svipað og hjá mörgum öðrum þjóðum,“ greinir Þóroddur frá.

Strákarnir með þeim þyngstu

15 ára íslenskir strákar eru hins vegar meðal þeirra þyngstu en þeir eru í 5. sæti. „Íslenskir strákar fitna með aldrinum en ekki stelpur. Samt finnst fleiri stelpum en strákum þær vera feitari en þær eru í raun og veru,“ segir Þóroddur.

Hluti skýringarinnar á því hversu miklar áhyggjur stelpur hafa af þyngdinni er samband mæðra og dætra, að því er sænski sálfræðingurinn Kristina Elfhag, sem starfar við Karólínsku stofnunina í Stokkhólmi, greinir frá í viðtali við Svenska Dagbladet.

Hún segir börn herma eftir mæðrum sínum. „Þær kvarta undan þyngd sinni og eru almennt óánægðar með líkama sinn. Auðvitað hefur þetta áhrif.“

Sálfræðingurinn bendir jafnframt á að mæður borði sætindi sér til huggunar og haldi síðan í við sig. Slíkt sé ekki heppilegt fyrir börn sem eigi ekki að hugsa um kaloríur.

Kröfur um ákveðið útlit eiga einnig þátt í því hversu mikið stelpur hugsa um þyngd, að mati sálfræðingsins. „Nú eiga börn að líta út eins og fullorðnir, þau eiga að vera í þröngum fatnaði og buxum sem ná ekki upp í mittið. Þetta vekur mikla athygli á sjálfum líkamanum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert