„Barðist við vindinn í 10 tíma"

Benedikts Lafleur hætti sundi yfir Ermasund eftir tíu tíma.
Benedikts Lafleur hætti sundi yfir Ermasund eftir tíu tíma. (C) MOTIV-MYND, Jón Svavarsson

Benedikts S. Lafleur, hætti sundi sínu yfir Ermarsund fyrir tveim tímum síðan eftir að hafa synt á móti straumnum í tíu klukkustundir.   Benedikt var búinn að synda hálfa leiðina eða um 18 kílómetra þegar mikið hvassviðri skall á og ákvað hann að hætta þegar ekki var útlit fyrir að veður myndi lægja.  Benedikt var orðinn kaldur eftir sundið og var líkamshiti hans kominn niður í 35 gráður. 

Í samtali við mbl.is segist Benedikt ánægður með að hafa náð þetta langt þó vissulega hafi það verið vonbrigði að hafa ekki náð takmarkinu.  „Þetta var eiginlega ógerlegt, ég var farinn að fá sjó ofan í mig, og gat varla andað eða tekið við næringu, ég barðist eins og ljón við vindinn í tíu tíma," segir Benedikt og bætir við að veður geti breyst á örskammri stund á Ermasundinu.  Þegar Benedikt og félagar hans lögðu af stað í morgun var steikjandi sól og spáð logni. 

„Reynslan af sundinu er þó dýrmæt og ég er ánægður með hvað ég þoldi sundið vel líkamlega," segir Benedikt, sem dvelur nú í Dover á Englandi og einbeitir sér nú að því að ná kröftum áður en hann heldur heim.

Benedikt hóf sundið á Shakespeare Beach á Englandi í morgun, og hefur hann helgað sundið baráttunni gegn mansali.  Benedikt segist ekki viss hvort hann muni reyna sundið aftur en þetta er í þriðja sinn sem hann heldur til Dover til að reyna við Ermarsundið.  Í fyrsta skipti varð hann að hætta við vegna veðurs.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert