Greiðri Leið heimilt að ganga til viðræðna við samgönguyfirvöld

Greið Leið, félag um gerð Vaðlaheiðarganga, samþykkti á aðalfundi félagsins í gær að heimila stjórn félagsins „að ganga til viðræðna við samgönguyfirvöld um sölu, annað hvort á öllum gögnum félagsins eða öllum hlutum í félaginu, eftir því hvernig um semst,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.  

Þar segir að kaflaskil séu í sögu Greiðrar leiðar. Félagið var stofnað fyrir fimm árum til þess að vinna að undirbúningi að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, annast gerð þeirra og reka þau.  Í upphaflegum samþykktum Greiðrar leiðar var gert ráð fyrir að félagið myndi undirbúa gerð ganganna og standa fyrir gerð þeirra.  Ljóst var á síðasta ári að það gæti ekki gengið eftir þegar fyrir lá að bjóða yrði út sérleyfi til að standa fyrir framkvæmdum og rekstri ganganna. Í framhaldinu gerði Alþingi samþykkt um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Í viðauka við samgönguáætlun 2007-2010, segir  að gert sé ráð fyrir því að Vaðlaheiðargöng verði byggð í einkaframkvæmd með veggjöldum. Göngin verði þó fjármögnuð af hálfu af ríkissjóði með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár.“

Þá segir ennfremur að fyrir liggi að rannsóknir að tilhlutan Greiðrar leiðar og niðurstöður þeirra eru grunnurinn að því að unnt er að ráðast í lokahönnun og framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, en stefnt er að því að útboðsgögn vegna framkvæmdarinnar verði tilbúin undir lok þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert