Skilorðsbundinn dómur fyrir ofsaakstur

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir að hafa ekið bifhjóli á ofsahraða á Suðurlandsvegi síðastliðið sumar. Var hann einnig sviptur ökurétti í þrjú ár og hjól hans gert upptækt. Manninum er gert að greiða sakarkostnað, 780.207 krónur.

Félagi mannsins, sem einnig ók á ofsahraða, var ekki gerð sérstök refsing í málinu en hann lamaður frá hálsi eftir slyss sem varð vegna ofsaakstur þeirra tvímenninga. Hann var sviptur ökurétti í sex mánuði og gert að greiða sakarkostnað 595.434 krónur.

Upphaf máls þessa er að lögreglumenn frá Selfossi voru staddir á Suðurlandsvegi við Kambabrún á leið austur er þeir mættu tveimur bifhjólum sem var ekið vestur Suðurlandsveg á móti akstursstefnu þeirra. Var hraði bifhjólanna mældur með ratsjá og mældist hraði þeirra 180 kílómetrar á klukkustund en ekki náðist að festa þá tölu í ratsjánni en hraðinn 179 kílómetrar á klukkustund var festur í ratsjánni. Var ökumönnunum strax gefið merki með forgangsljósum lögreglubifreiðarinnar um að stöðva akstur hjólanna auk þess að eftirför var hafin.

Var Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar tilkynnt um aksturinn sem sendi lögreglubifreiðar á móti bifhjólunum. Í framhaldi mynduðu tvær lögreglubifreiðar vegatálma fyrir ofan Gunnarshólma og tvær aðrar lögreglubifreiðar annan vegatálma við Hólmsá.

Óku bifhjólin fram hjá báðum vegatálmunum og beygðu inn á Breiðholtsbraut til suðurs við Rauðavatn. Stuttu seinna ók annað bifhjólið aftan á bifreið og við það féll bæði hjól og ökumaður í götuna en hinu bifhjólinu virðist hafa ekið yfir ökumann fyrra hjólsins. Komu lögreglubifreiðar og sjúkraflutningamenn á vettvang í sama mund og voru ökumenn bifhjólanna báðir fluttir á sjúkrahús í beinu framhaldi.

Sakfelldur í þrígang fyrir vítaverðan ofsaakstur

Samkvæmt sakavottorði  þess sem var dæmdur í átta mánaða fangelsi skilorðsbundið var honum gerð refsing í nóvember 2002 fyrir hraðakstur og gert að greiða 80.000 króna sekt til ríkissjóðs auk þess að vera sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Var hann þá sakfelldur fyrir að aka á 144 kílómetra hraða þar sem leyfður hámarkshraði var 60 kílómetrar. Þá var hann dæmdur til greiðslu 115.000 króna sektar 17. október 2006 auk þess að vera sviptur ökurétti í fimm mánuði fyrir hraðakstur.

Var hann sakfelldur fyrir að aka á 181 kílómetra hraða á bifhjóli þar sem leyfður hámarkshraði var áttatíu kílómetrar á klukkustund, með 13 ára farþega aftan á hjólinu. Hefur hann því nú verið sakfelldur í þriðja sinn fyrir vítaverðan ofsaakstur. 

Lamaður fyrir neðan háls

Hinn maðurinn, sem ekki var gerð sérstök refsing í málinu, slasaðist alvarlega við áreksturinn en hann hálsbrotnaði og hlaut mænuskaða með hárri lömun eða frá hálsi með nokkurri hreyfingu í hægri handlegg en með lítilli í vinstri handlegg og engri hreyfingu í ganglimum.

Auk lömunar og skynskerðingar í öllum útlimum sé hann með blöðrulömun og að hluta til lömun í meltingarvegi vegna mænuskaðans og skerta öndun auk annarra vandamála sem tengjast mænuáverkanum. Þá hafi hann brotnað á vinstri upphandlegg og hlotið vægan heilaskaða. Sé um varanlegan skaða að ræða og mesti batinn kominn fram. Um horfur mannsins segir að ljóst sé að hann búi við varanlegan, háan hálsmænuskaða með spastískri lömum í öllum útlimum. Hann muni til frambúðar búa við mjög skerta sjálfsbjargargetu og hreyfigetu og vera háður hjólastól og þurfa mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs. Ekki sé að vænta frekari bata.

Segir í niðurstöðu héraðsdóms að ljóst sé að afleiðingar slyssins eru hörmulegar og mun maðurinn búa við þær alla ævi. Með vísan til afleiðinga slyssins, þess að hann kemur aldrei til með að vera fær um að geta fullnustað þær refsingar sem hann hefur unnið til, þykir rétt að gera honum ekki sérstaka refsingu í máli þessu aðra en ökuleyfissviptingu.

Mennirnir skulu greiða in solidum sakarkostnað, samtals 209.349 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert