Segir ásakanir um trúnaðarbrest fyrirslátt

Horft yfir Grindavík.
Horft yfir Grindavík. mbl.is/Kristinn Benediktsson

Sigmar Edvardsson, fráfarandi formaður bæjarráðs Grindavíkur, segir að það sé fyrirsláttur að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafi verið óánægðir með samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn vegna skorts á trúnaði og samráði í mörgum málum. Hann segir ákvörðunina hafa komið sér á óvart.

Sigmar segir að flokkarnir hafi unnið eftir málaefnasamningi sem var gerður í upphafi kjörtímabilsins af fullum heilindum þar til nú. Hann segir að allar ásakanir um trúnaðarbrest hafi ekki verið neitt annað en tilraun til að sprengja meirihlutasamstarfið og ná í bæjarstjórastólinn.

„Þetta kom mér verulega á óvart,“ sagði Sigmar í samtali við mbl.is.

Slæm áhrif fyrir Grindavík

Sigmar segir ljóst að málið snúist að stórum hluta um samning um orkuafhendingu á iðnaðarsvæðum Grindavíkur til Hitaveitu Suðurnesja sem bæjarfélagið hefur verið að vinna að að undanförnu.  Hann bendir á að Samfylkingin hafi lýst sig andsnúna öllum virkjanaframkvæmdum og séu á móti uppbyggingu álvers í Helguvík. „Þetta getur haft mjög slæm áhrif fyrir Grindavík ef að samningurinn sem er klár til undirritunar við Hitaveitu Suðurnesja fer í uppnám,“ segir Sigmar.

Jóna Kristín næsti bæjarstjóri

Nýtt meirihlutasamstarf Samfylkingarfélags Grindavíkur og Framsóknarfélags Grindavíkur var undirritað í gærkvöldi. Samkomulagið verður kynnt félagsmönnum á félagsfundum félaganna í kvöld, að því er segir í tilkynningu.

Ákveðið hefur verið að Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, oddviti samfylkingarfélags Grindavíkur verði bæjarstjóri.  S- listinn fær einnig forseta bæjarstjórnar en B-listinn formann bæjarráðs og setu í stjórn Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert