Ummæli um Björgólf Guðmundsson dæmd ómerk

Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbanka Íslands,
Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Ummæli Kristjáns S. Guðmundssonar um Björgólf Guðmundsson sem birtust í grein í Morgunblaðinu mánudaginn 29. október 2007 undir yfirskriftinni „Eimskip, óskabarn þjóðarinnar" voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmd ómerk. Farið var fram á að ummælin væri dæmd dauð og ómerk og að greinarhöfundi yrði gerð refsing. Fallist var á að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk en ekki að Kristjáni yrði gerð refsing. Hann þarf hins vegar að greiða 300 þúsund krónur í málskostnað.

Í greininni skrifar Kristján að fyrrum ráðamaður í félaginu Hafskip hf. og sögulegum endalokum þess tekst með tilkomu Rússagulls að ná yfirhöndinni í hlutabréfaeign Hf. Eimskipafélags Íslands og leggja fyrirtækið síðan niður með yfirtöku dótturfélags Hf. Eimskipafélags Íslands, þ.e. Burðaráss ehf. „Því hefur vaknað sú spurning hvort hér hafi verið um að ræða sykursæta hefndaraðgerð af hálfu fyrrverandi ráðamanns í Hafskip hf. að leggja vondan keppinaut niður til að sýna hver hefur valdið."

Eins fór Björgólfur fram á að ummæli Kristjáns: „Eftir yfirtöku á Hf. Eimskipafélagi Íslands svo og Landsbankanum réðust ráðamenn þar í að sölsa undir sig umræddan lífeyrissjóð með slíkri ósvífni að glæpsamlegt yrði talið í siðmenntuðum heimi," yrðu dæmd dauð og ómerk.

Segir í niðurstöðu dómsins að þrátt fyrir að tjáningarfrelsi njóti verndar stjórnarskrárinnar  þá er þar jafnframt veitt heimild til að setja því vissar skorður.

 Ekki sé um það deilt í máli þessu að sá fyrrum ráðamaður Hafskips hf. og ráðamaður Landsbanka Íslands hf., sem vitnað er til í hinum tilgreindu ummælum, sé Björgólfur þótt hann sé ekki nafngreindur þar sérstaklega. Björgólfur er annar aðaleigandi Landsbanka Íslands hf. og hefur verið formaður bankaráðs bankans frá árinu 2003. Þá var hann forstjóri Hafskips hf. þegar það félag var tekið til gjaldþrotaskipta í desember 1985. Segir í niðurstöðu dómsins að Kristjáni hafi ekki sýnt fram á með gögnum að Hf. Eimskipafélag Íslands hafi verið lagt niður. Hins vegar er komið fram í málinu að á síðustu árum hafa verið gerðar nokkrar breytingar á rekstrarformi skipafélagsins en ekkert annað liggur fyrir en að í því sambandi hafi verið staðið að ákvarðanatöku í samræmi við lög og reglur. Mun skipafélagið nú vera rekið sem Hf. Eimskipafélag Íslands þó ekki sé um upprunalega félagið sjálft að ræða eins og að framan hefur verið rakið. Sýnist þó mega taka undir það með Kristjáni að efnahagsleg og starfræn samfella sé á milli félaganna tveggja enda verður ráðið af fyrirliggjandi útprentun af heimasíðu Eimskips að félagið hafi verið stofnað árið 1914.

Segir í dómi héraðsdóms að með þessum ummælum drótti Kristján að Björgólfi að fjárfesting hans í Hf. Eimskipafélagi Íslands hafi stjórnast af hefndarþorsta vegna þess hvernig samkeppni milli Hafskips og Eimskips hafi verið háttað á sínum tíma. Segir dómari að ummælin séu meiðandi fyrir Björgólf og til þess fallin að sverta mannorð hans. Teljast þau varða við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ber því að taka til greina kröfu stefnanda um að þau verði ómerkt.

            Hvað varðar seinni ummælin skýrir Kristján ummæli þessi þannig að starfsmenn Landsbankans hafi hunsað reglur Lífeyrissjóðs Hf. Eimskipafélags Íslands og beitt brögðum með því að standa í vegi fyrir því að sjóðfélagar fengju réttar upplýsingar við framkvæmd kosningar um breytingu á reglum fyrir lífeyrissjóðinn og þar með sameiningu við aðra sjóði sem Landsbankanum hafi verið falin.

Hafi sú framkvæmd verið siðlaus og ólögleg og beri stefnandi ábyrgð á henni sem yfirmaður bankans. Þá hafi einræðistilburðir ólöglegrar stjórnar lífeyrissjóðsins komið fram í því að takmarkið hafi verið að sölsa undir stjórn Landsbankans umráðarétti yfir því fjármagni sem liggi í lífeyrissjóðnum. Engin sönnun liggur fyrir í málinu sem styður þessar staðhæfingar Kristjáns.

Björgólfur hefur á móti haldið því fram að samkomulag hafi verið gert um það, að undangengnu útboði, að Landsbankinn tæki að sér eignavörslu fyrir lífeyrissjóðinn. Hefur Kristjáni ekki tekist að sýna fram á að framangreind ummæli um glæpsamleg vinnubrögð í þessu sambandi eigi við einhver rök að styðjast. Teljast ummælin  því tilhæfulaus og meiðandi fyrir Björgólf. Þau eru brot á 235. gr. almennra hegningarlaga og verða því einnig dæmd ómerk skv. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert