Óskiljanleg töf á afhendingu gagna

Atli Gíslason, fulltrúi Vinstri grænna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hefur sent forseta og forsætisnefnd Alþingis bréf vegna þeirra tafa sem orðið hafa á  því að útvega nefndarmönnum gögn varðandi svokallað matvælafrumvarp. Segir Atli töfina óskiljanlega og óafsakanlega.

Þá segir að umrædd gögn hafi legið að baki þeim  skilningi stjórnvalda að falla þyrfti frá umsaminni undaþágu Íslands samkvæmt EFTA samningnum varðandi búfjárafurðir og þau hefðu átt að liggja fyrir nefndarmönnum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd við upphaf á umfjöllun nefndarinnar um málið.

Bréf Atla fylgir í heild sinni hér á eftir:

Laugum, Reykjadal 12. júlí 2008

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis

Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar

Forsætisnefnd Alþingis

Efni: Vegna frumvarps um endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn (EES-reglur, breyting ýmissa laga)

Í bréfi dagsettu þann 16. maí sl. krafðist ég þess sem nefndarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að öll gögn utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um feril málsins frá upphafi til enda viðræðna við ESB yrðu lögð fyrir fund nefndarinnar þann 19. maí. Var þessi krafa ítrekun á fyrri beiðnum sama efnis á fundum nefndarinnar. Send var ítrekun þess efnis þann 12. júní til formanns nefndarinnar, utanríkissráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fylgt var eftir með enn einni ítrekun í formi tölvupósts þann 24. júní.

Svör voru boðuð af formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vikuna 16.- 23. júní ef marka má frétt Fréttablaðsins 16. júní sl. Enn bólar ekki á þessum gögnum og er það algjörlega óviðunandi. Gögn þess efnis er staðfestu þann skilning stjórnvalda að falla þurfti frá umsaminni undaþágu Íslands samkvæmt EFTA samningnum varðandi búfjárafurðir hefðu átt að liggja fyrir nefndarmönnum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd við upphaf á umfjöllun nefndarinnar um málið.

Nú síðast í grein í 24stundum þann 10. júlí fullyrðir formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að „Evrópusambandið setur það skilyrði fyrir yfirtöku á nýju matvælalöggjöfinni að sú undanþága sem við höfum búið við, verði felld niður." Til þess að fullyrðing Arnbjargar teljist marktæk verður hún að búa yfir gögnum sem undirritaður hefur margsinnis krafist. Annars verður vart séð hvernig slík fullyrðing geti staðist. Þær tafir sem hafa orðið á að þau gögn sem undirritaður hefur beðið um fela í sér alvarleg brot á rétti undirritaðs sem þingmanns að fá upplýsingar um mál sem liggur fyrir Alþingi til meðferðar.

Tilvitnuð bréf og önnur gögn fylgja tölvupósti þessum.

Virðingarfyllst,

Atli Gíslason

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert