Öryggiskröfum ekki fylgt vegna fjárskorts

TF-SYN.
TF-SYN.

Þrýstingur um fjárhagslegt aðhald var á meðal orsakaþátta í flugóhappi TF-SYN, Fokker-vél Landhelgisgæslunnar, þegar búnaður við nefhjólið brotnaði við lendingu á flugvellinum í Vogum í Færeyjum haustið 2004.

Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa, að ströngustu öryggiskröfum hafi ekki verið fylgt og ónothæfum varahlutum komið fyrir í lendingarbúnaðinum við nefhjólið og í aðallendingarbúnaðinum vinstramegin. 

Fimm áhafnarmeðlimir og tólf farþegar fundu högg við lendingu. Þegar vélin var svo dregin að vallarhliðinu uppgötvaðist að búnaður við nefhjólið hefði brotnað.

Skýrsluhöfundar fara hörðum orðum um eftirlit með öryggi vélarinnar og hvetja Landhelgisgæsluna til að fylgja ávallt eigin öryggisreglum. Flugvélin hafi verið óflughæf og lendingarbúnaður við nefhjólið kominn fram yfir skilgreindan líftíma slíks búnaðar af hálfu Flugmálastjórnar.

Meginniðurstaða skýrslunnar er að misbrestur á að viðhaldsreglum hafi verið fylgt eftir hafi valdið óhappinu. Einnig er dóms- og kirkjumálaráðuneytið talið hafa brugðist Landhelgisgæslunni með ófullnægjandi framlögum til reksturs og viðhalds flugvéla, ásamt því að hafa ekki veitt henni heimild til að uppfylla nýjar evrópskar rekstrar- og öryggisreglur.

Skýrsla Rannsóknarnefndar flugslysa 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert