Spánarsnigill fannst í Hnífsdal

„Þetta er vont mál,“ sagði Erling Ólafsson, dýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, þegar hann sá mynd af spánarsnigli sem Aron Ingi Smárason fann í Hnífsdal síðdegis í gær. Hingað til hafa þessi meindýr einungis fundist hér á landi á höfuðborgarsvæðinu og í Ólafsfirði. Erling þótti slæmt að heyra að snigillinn hefði numið land á Vestfjörðum.

„Þetta er þessi myndarlegi spánarsnigill, eins og þeir verða hvað stærstir. Fullvaxið dýr,“ sagði Erling. Venjulega lifir spánarsnigillinn í eitt ár. Erling taldi að þessi hefði klakist í fyrra og síðan legið í dvala sem ungviði og náð þessum mikla vexti í sumar. „Ég var búinn að spá því í fyrrahaust að það yrði sprenging eða mikil fjölgun í spánarsniglum í ár. Það hefur ræst því ég er búinn að fá allmargar tilkynningar um þá á höfuðborgarsvæðinu. Ágúst er ekki enn kominn en hann er aðalmánuður spánarsniglanna.“

Spánarsnigill fannst fyrst hér á landi haustið 2003. Hann verður 7-15 cm langur og er oftast rauðbrúnn á lit. Snigillinn er alæta en er sólginn í lyktarsterkar plöntur og étur auk þess hræ og hundaskít svo eitthvað sé nefnt. Fjöldi þeirra getur orðið gífurlegur við hagstæð skilyrði, sem eru rakt loftslag og hlýindi. Geta þeir valdið miklum skaða í garðrækt og matjurtagörðum.

Erling vill gjarnan fá spánarsnigla lifandi á Náttúrufræðistofnun Íslands eða góðar myndir til að greina þá. Einnig upplýsingar um fundarstað. Tölvupóstfang hans er erling@ni.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert