Bólusett við eyrna- og lungnabólgu

Nú er til athugunar hjá landlækni að börn verði almennt bólusett við pneumokokkum sem geta meðal annars valdið eyrnabólgu og heilahimnubólgu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun þar um.

Almenn bólusetning með bóluefninu Prevenar er þegar hafin í 24 löndum, meðal annars á öllum Norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum sýndu rannsóknir fram á að bólusetningin fækkaði eyrnabólgutilfellum sem komu til kasta heilsugæslunnar. Enn fremur minnkaði eftirspurn eftir sýklalyfjum en notkun þeirra hér á landi hefur aukist fram úr hófi á undanförnum árum.

Aðeins þeir sem er sérstaklega hætt við pnuemokokkasýkingum, til dæmis miltislaust fólk og hjartasjúklingar, eru bólusettir. Prevenar veitir vörn gegn sjö algengustu tegundum pneumokokka og hefur verið leyfilegt hér á landi síðan árið 2001. Fólk getur því gengist undir bólusetningu að eigin frumkvæði á eigin kostnað.

Afbrigðin sjö sem Prevenar veitir vörn gegn valda stórum hluta lungnabólgutilfella og um helmingi eyrnabólgutilfella. Einnig ver hún hinn bólusetta gegn heilahimnubólgu og alvarlegum blóðsýkingum. Sólveig Björk Einarsdóttir, sölu- og markaðsfulltrúi lyfjasviðs Icepharma er vongóð um að landlæknir mæli með almennri bólusetningu.

„Bólusetning kemur væntanlega til með að minnka sýklalyfjanotkun hjá ungum börnum þar sem sýkingar yrðu færri,“ segir Sólveig. Hún telur að fólk þrói síður með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum þar sem notkun þeirra myndi dragast saman en slíkt ónæmi er talin vera ein stærsta heilbrigðisógn næstu áratuga.

Sólveig vill þó leggja áherslu á að bóluefnið verji fólk aðeins fyrir sýkingum af völdum pneumokokka en ekki fyrir sams konar sýkingum af völdum annarra baktería. Auk þess vinni bóluefnið ekki á veirusýkingum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert